
ÍR fékk Leikni í heimsókn til sín í kvöld í Breiðholtsslag en liðin voru að mætast í 14. umferð Lengjudeild karla. ÍR sigraði 1-0 og það var mark frá Guðjóni Mána Magnússyni sem skildi liðin að.
Lestu um leikinn: ÍR 1 - 0 Leiknir R.
Guðjón var afar ánægður með frammistöðuna hjá liðinu í dag og hefði viljað sjá fleiri mörk.
„Mér fannst baráttan vera geggjuð og óheppni að hafa ekki skorað fleiri mörk.“
Eina mark leiksins kom frá Guðjóni í fyrri hálfleiknum.
„Ég sá Hákon vera keyra upp á hægra kantinum og vissi að hann myndi finna mig á nærsvæðinu og ég ákvað bara að reyna við boltann.“
Undir lok leiksins var mikil spenna og voru færi á báða bóga. Guðjón var því spurður hvort hann var orðinn smeykur við jöfnunarmark.
„Mér var bara orðið illt í maganum þegar þeir voru að taka þessar aukaspyrnur í kringum teiginn. En Marc og allir í vörninni voru bara að standa sig hrikalega vel.“
Guðjón er ekki uppalinn í ÍR og því var hann spurður hvernig það væri að gíra sig upp í svona Breiðholtsslag.
„Já maður náttúrulega stemmir sig í það. Þetta er bara derby og maður lifir sig inn í það.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.