Fyrsta umferð í fótboltamóti karla á Ólympíuleikunum í París fór fram í gær og fer fyrsta umferðin í fótboltamóti kvenna fram í dag.
Það eru 12 þjóðir sem keppast í kvennaflokki og er þeim skipt upp í þrjá riðla. Allar þjóðirnar mæta til leiks í dag þar sem nokkuð er um stórleiki.
Heimsmeistarar Spánverja spila við sterkt landslið Japan í fyrsta leik dagsins, á sama tíma og Kanada spilar við Nýja-Sjáland eftir að kanadíska þjálfarateymið sagði upp störfum eftir að upp komst um njósnamál.
Kanadísku þjálfararnir njósnuðu um æfingu Nýsjálendinga með drónum en voru gripnir við athæfið.
Þýskaland spilar svo stórleik við Ástralíu á sama tíma og Nígería mætir Brasilíu, áður en spennandi kvöldleikir fara af stað.
Heimakonur í franska landsliðinu mæta þar til leiks gegn Kólumbíu á meðan Bandaríkin spila áhugaverða viðureign við Sambíu.
Leikir dagsins:
15:00 Spánn - Japan
15:00 Kanada - Nýja-Sjáland
17:00 Þýskaland - Ástralía
17:00 Nígería - Brasilía
19:00 Frakkland - Kólumbía
19:00 Bandaríkin - Sambía
Athugasemdir