Aiser Illarramendi, goðsögn hjá Real Sociedad, hefur mikla trú á íslenska landsliðsfyrirliðanum Orra Steini Óskarssyni, framherja Sociedad.
Illarramendi er 35 ára gamall miðjumaður. Hann er uppalinn hjá Sociedad en spilaði með Real Madrid frá 2013-2015. hann sneri síðan aftur til Sociedad og spilaði þar til ársins 2023. Hann fór síðan til FC Dallas en er án félags í dag. Hann var orðaður við KA í sumar.
Orri Steinn Óskarsson gekk til liðs við Sociedad síðasta sumar en FCK seldi hann fyrir metfé, 20 milljónir evra. Hann skoraði 7 mörk í 37 leikjum á síðustu leiktíð en hann opnaði markareikninginn á nýju tímabili í gær þegar hann tryggði liðinu stig í 2-2 jafntefli gegn Espanyol.
„Það eru margir leikmenn sem geta sprungið út en ég tel að það verði Orri. Ég sá margt gott frá honum í fyrra en það er ekki auðvelt að koma inn í nýtt lið, nýjan kúltúr, annað tungumál og auk þess að meiðast," sagði Illarramendi.
„Hann er með góðar hreyfingar og er með mörk í sér. Ef hann nær stöðugleika og meiðist ekki mun hann skína því hann er með frábæra leikmenn í kringum sig."
Athugasemdir