"Það var virkilega gott að vinna þennan leik og fá þrjú stig. Við erum í bullandi baráttu um Evrópusæti. En Auðvitað fá Íslandsmeistararnir heiðursvörð," segir Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, eftir 3-1 sigur gegn Íslandmeisturum Víkings í kvöld en Blikar stóðu heiðursvörð fyrir nýkrýnda meistara fyrir leikinn.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Víkingur R.
"Mér fannst við hafa stjórn á leiknum nánast allan leikinn. Við vorum svolítið maður á mann og fannst þeir ekki komast mikið inn í leikinn þannig. Við vorum yfir í flestum einvígum og þannig unnum við leikinn."
Leikir þessara liða eru jafnan mikil skemmtun og hart er barist. Blikar voru ekki í neinum vandræðum með að gíra sig upp í þennan leik. "Það var alls ekki erfitt að mótívera sig fyrir þennan leik. Það er mikið talað um þessar mótíveringar og það á ekkert að vera þannig að við séum að velja okkur leiki en seinustu tveir leikir hafa verið virkilega stórir og mikilvægir. En við ætlum að fara svona í alla leiki í framhaldinu."
"Mér finnst þessi rígur geggjaður. Það er gaman að þessu. Fólk mætir á þessa leiki og það er gaman þegar það er svona mikill hasar."