Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. janúar 2021 23:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aron Jó æfði með Val - Spilar hann á Íslandi næsta sumar?
Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Aron Jóhannsson æfði með Val á dögunum samkvæmt því sem fram kom í hlaðvarpsþættinum Dr Football í dag.

Hjörvar Hafliðason sagði að Aron hefði verið að æfa með Val og spurði Hrafnkell Frey Ágústsson, sérfræðing þáttarins, hvort sóknarmaðurinn myndi spila á Íslandi næsta sumar. Hrafnkell telur svo ekki vera.

„Það mun vera það allra síðasta sem hann mun gera. Það er mjög ólíklegt," sagði Hrafnkell.

Kristján Óli Sigurðsson, sérfræðingur í þættinum, segir að Aron sé búinn að fá tilboð en þau séu ekki mjög góð. Það sé erfitt að vera samningslaus fótboltamaður í núverandi ástandi.

Hinn þrítugi Aron átti gott tímabil með Hammarby á síðasta ári eftir mikla þrautagöngu vegna meiðsla. Hann skoraði tólf mörk í 22 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni.

Hann yfirgaf Hammarby eftir tímabilið og er núna í leit að nýju félagi. „Núna er maður að bíða við símann og sjá hvað gerist. Þetta getur verið hvað sem er; Kína, Bandaríkin og Ísland þess vegna. Ég reikna ekki með því að enda á Íslandi, ég vona að það komi eitthvað erlendis frá," sagði Aron í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið á dögunum.


Athugasemdir
banner
banner