Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 26. mars 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tilraunir voru gerðar til að fá Maradona til Jórvíkurskíris
Sheffield United og Leeds reyndu við argentísku goðsögnina
Goðsögnin Diego Armando Maradona.
Goðsögnin Diego Armando Maradona.
Mynd: Getty Images
Það sem hefði getað orðið.
Það sem hefði getað orðið.
Mynd: Getty Images
Sheffield United er í dag að gera flotta hluti í ensku úrvalsdeildinni. Félagið var í B-deild er það reyndi að fá Maradona.
Sheffield United er í dag að gera flotta hluti í ensku úrvalsdeildinni. Félagið var í B-deild er það reyndi að fá Maradona.
Mynd: Getty Images
Leeds var einnig í B-deild þegar það reyndi að fá Maradona. Félagið er einnig í dag í B-deild, en á toppi þeirrar deildar og stefnir á endurkomu í deild þeirra bestu von bráðar.
Leeds var einnig í B-deild þegar það reyndi að fá Maradona. Félagið er einnig í dag í B-deild, en á toppi þeirrar deildar og stefnir á endurkomu í deild þeirra bestu von bráðar.
Mynd: Getty Images
Í dag er Maradona 59 ára gamall og þjálfari Gimnasia de La Plata í Argentínu.
Í dag er Maradona 59 ára gamall og þjálfari Gimnasia de La Plata í Argentínu.
Mynd: Getty Images
Diego Armando Maradona, einn besti fótboltamaður sem uppi hefur verið, spilaði aldrei fyrir enskt félag þó að félög þar í landi, en þó eru sögur um að félög þar í landi hafi reynt að fá hann.

Sheffield United reyndi að fá 17 ára gamlan Maradona til Englands og níu árum síðar reyndi Leeds United að fá Argentínumanninn hæfileikaríka frá Napoli.

Það eru sögurnar að minnsta kosti. The Athletic skoðaði hversu nálægt því Sheffield United og Leeds United voru að fá Maradona.

Sheffield United vildi ekki múta hernum
Argentína varð Heimsmeistari á heimavelli 1978 og mikill fögnuður braust út á götum Buenos Aires. Argentína var á toppi heimsins og England tók eftir því.

Undir stjórn þjálfarans Harry Haslam kom Sheffield United sér fremst í röðina. Richard Sutcliffe, blaðamaður The Athletic, ræðir við John Garrett, sem lengi hefur starfað fyrir Sheffield United. „Það voru þrjú félög sem flugu til Argentínu," segir Garrett.

„Það voru Sheffield United, Tottenham og Arsenal. Á síðustu stundu hætti Arsenal við og fór Tony Pritchett (blaðamaður um Sheffield United fyrir Sheffield Star í 30 ár) í staðinn. Á Heimsmeistaramótinu sást hvað það voru margir ótrúlega hæfileikaríkir leikmenn í Argentínu og bæði félög ætluðu að nýta sér það."

Tottenham var í efstu deild, en Sheffield United í B-deild. Tottenham náði að landa Ricky Villa og Ossie Ardiles, leikmönnum sem Sheffield United hafði einnig áhuga á. Villa og Ardiles áttu báðir eftir að gera það gott í London.

Sheffield United gekk frá kaupum á Alejandro Sabella, miðjumanni River Plate, og einnig tókst félaginu að fá sóknarmanninn Pedro Verde, frænda Juan Sebastian Veron.

Haslam var ánægður með að fá báða þessa leikmenn, en hann vildi meira og það vissu umboðsmenn í Suður-Ameríku. Þess vegna fóru aðilar frá Sheffield United og sáu 17 ára gamlan Diego Maradona spila. Maradona var ekki í HM-hópi Argentínu 1978 þar sem Cesar Luis Menotti, keðjureykjandi þjálfari Argentínu, taldi hann of ungan.

Maradona hafði þá spilað í tvö tímabil með Argentinos Juniors og Haslam líkaði það sem hann sá. „Ég skal taka hann," sagði Haslam. Í kjölfarið samþykkti Sheffield United að borga 150 þúsund pund fyrir Maradona.

Diego Armando Maradona var á leið til Sheffield United, en nokkrum klukkutímum breyttist það þegar barið var á hóteldyrnar hjá þjálfaranum.

Herforingjastjórn var í Argentínu og það voru hermenn sem börðu á hóteldyrnar. Haslam var tjáð að það þyrfti að borga svipaða upphæð og kaupverðið ef hleypa átti Maradona úr landinu.

„Peningurinn var ekki vandamál," segir Garrett. „Vandamálið kom því allt í einu var málið orðið pólitískt. Sheffield United vildi ekki þurfa að múta fólki til að kaupa leikmann. Stjórnarmönnum félagsins leið ekki vel með það. Þannig að félagið hætti að lokum við kaupin."

„Auðvitað hefur síðan verið sagt að félagið hafi ekki haft efni á Maradona og því keypt Sabella í staðinn. En það er ekki satt. Sheffield United var tilbúið að veðja á hann. Þetta er stórkostleg saga í rauninni."

Sheffield United er núna að gera góða hluti í ensku úrvalsdeildinni, en hvað hefði getað orðið með komu Maradona til félagsins?

Leeds reyndi níu árum síðar
Maradona yfirgaf Argentínu árið 1982 og fór til Barcelona. Hann var í Katalóníu í tvö ár, en þaðan lá leiðin til Ítalíu, nánar tiltekið til Napoli. Þar er hann goðsögn eftir að hafa leikið með félaginu frá 1984 til 1991. Hann hjálpaði Napoli að vinna sinn fyrsta Ítalíumeistaratitil 1987 og í kjölfarið kom Leeds til sögunnar.

Leeds var þá í B-deild, en Bill Fotherby heitinn, sem var þá í stjórn Leeds, var staðráðinn í að fá argentíska snillinginn sem fór fyrir sigurliði Argentínu á HM 1986. Fotherby ræddi við Maradona, en Argentínumaðurinn útskýrði það að hann hefði lofað að taka eitt tímabil í viðbót hjá Fiorentina.

Fotherby reyndi mikið og var á einum tímapunkti orðinn svo viss um að hann myndi fá Maradona að hann hafði samband varðandi leigu á sal svo að styrktaraðilar félagsins gætu hitt Maradona og heilsað upp á hann.

Don Warters, sem var á þeim tíma yfir fótboltaskrifum á Yorkshire Evening Post, kom fyrstur með söguna. „Bill hringdi í mig klukkan tvö og sagði mér að Leeds væri að tala við umboðsmenn Maradona. Ég trúði því ekki, en hann var staðfastur á þessu og því talaði ég við yfirmenn mína."

„Við ákváðum að birta sérstaka útgáfu af blaðinu þar sem við vildum ekki að neinn annar kæmi fyrst með söguna."

Spurður að því hvort að hann héldi að það hefði einhvern tímann verið í alvöru möguleiki á Maradona í treyju Leeds, þá segir Worters: „Fotherby hélt klárlega að hann ætti möguleika. Hann var frábær sölumaður og draumur blaðamannsins. Hann vissi hvað umfjöllun skipti miklu máli."

Hinn ofurbjartsýni Fotherby varð að lokum að játa sig sigraðan. „Þetta fjaraði út," sagði Fetherby árið 2010. „Það er mjög svekkjandi því það hefði verið stórkostlegt fyrir Leeds. En jafnvel þó að það gekk ekki að kaupa hann þá fengum við mikla umfjöllun sem ég tel að hafi hjálpað félaginu að endurfæðast undir stjórn Howard Wilkinson nokkrum árum síðar."

Bara ef Maradona hefði endað í Jórvíkurskíri.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner