Reynir Sandgerði
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla þjálfara liðanna í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. Reynir S. 36 stig
11. Fjarðabyggð 35 stig
12. Völsungur 33 stig
Lokastaða í fyrra: Reynir fór upp úr 3. deild eftir að hafa endað í 2. sæti deildarinnar. Liðinu var spáð 4. sæti deildarinnar í fyrra í spánni fyrir mót. Liðið var með 30 stig eftir tólf umferðir í fyrra og allt stefndi í deildarmeistarartitil. „Einungis" tólf stig komu inn í síðustu átta umferðunum og KV skaust upp fyrir Reyni. Reynir náði í 25 stig á heimavelli og 17 á útivelli. Mjög mikið var skorað í leikjum liðsins eða ríflega fimm mörk í leik. Þrjú skoruð og tvö á sig að meðaltali.
Þjálfarinn: Haraldur Freyr Guðmundsson er að fara inn í sitt fjórða tímabil með liðið. Haraldur verður fertugur á árinu og er í sínu fyrsta starfi sem þjálfari hjá meistaraflokksliði. Hann er Keflvíkingur sem lék í sex ár sem atvinnumaður á sínum ferli, með Álasund og Start í Noregi og Apollon á Kýpur. Þessi fyrrum varnarmaður lék þá tvo A-landsleiki. Luka Jagacic og Aron Elís Árnason aðstoðuðu Halla í bikarleiknum gegn ÍBV um helgina.
Álit Ástríðunnar:
Hlaðvarpsþátturinn Ástríðan er leiðandi í umfjöllun um 2. deild. Þáttarstjórnendur gefa sitt álit á liðunum fyrir mót.
„Reynismenn eru nýliðar í deildinni eftir að hafa deilt yfirburðum með KV í 3. deild í fyrra. Þar spilaði liðið ákveðinn kraftabolta og erfitt var að brjóta þá. Þeir hafa síðan þá bætt við sig urmul af reynslumiklum og góðum leikmönnum sem hafa undanfarin ár spilað vel með góðum liðum. Ekki er óeðlilegt að nýliðum sé spáð basli í sterkri 2. deild í sumar."
Styrkleikar: „Mikil reynsla bæði hjá nýjum leikmönnum sem og hjá þeim sem voru fyrir. Reynisliðið er hokið af reynslu og stútfullt af mönnum sem hafa gert þetta allt saman áður en í bland við spennandi yngri leikmenn eins og Kristófer Pál og Edon Osmani til dæmis. Liðið hefur heldur ekki misst neina lykilmenn frá því í fyrra en eldri menn eins og Magnús Sverrir, Sigurbergur Elísson og Halldór Kristinn gætu verið spurningamerki. Í ár þurfa þeir að halda áfram að skora eins og í fyrra. Þá gekk liðinu vel þegar þeir gátu beitt skyndisóknum og þurftu ekki að stýra leiknum, það gæti orðið raunin í mörgum leikjum í 2. deild."
Veikleikar: „Vörninni gekk illa að halda hreinu í 3. deildinni í fyrra. Í ár þarf að stoppa í þau göt sem sköpuðust og höfum við trú á því að Haraldur þjálfari hafi sett mikið púður í það í vetur. Nýliðar í deildinni gætu vanmetið styrk liða, Reynir þarf að mæta með „underdog“ hugarfar í hvern einasta leik og leggja meira á sig en aðrir."
Lykilmenn: Magnús Þórir Matthíasson, Elton Barros, Unnar Már Unnarsson.
Gaman að fylgjast með: Kristófer Páll Viðarsson. Kemur til Reynis á láni frá Keflavík eftir erfið meiðsli undanfarin ár. Kristófer var mikið efni fyrir nokkrum árum og byrjaði ungur að spila með Leikni Fásk.
Komnir:
Rúnar Gissurarson frá Njarðvík
Unnar Már Unnarsson frá Kórdrengjum
Edon Osmani frá Keflavík
Magnús Þórir Matthíasson frá Kórdrengjum.
Kristófer Páll Viðarsson frá Keflavík.
Fannar Orri Sævarsson frá Víði
Aron Elís Árnason frá Víði.
Krystian Wiktorowicz frá Njarðvík (var á láni í fyrra)
Farnir:
Ante Marcic til Króatíu
Óvíst hvort einhverjir hættu eftir síðasta tímabil.
Fyrstu þrír leikir:
7. maí Haukar úti
15. maí KF hema
21. maí Kári heima
Athugasemdir