De Gea, Ramsdale, Guirassy, Nketiah, Varane, Maignan og fleiri í pakka dagsins
banner
   þri 26. september 2023 22:34
Brynjar Ingi Erluson
„Verður að verðskulda tækifærið“
Erik ten Hag
Erik ten Hag
Mynd: EPA
Mason Mount var að snúa til baka úr meiðslum
Mason Mount var að snúa til baka úr meiðslum
Mynd: EPA
Ten Hag var ánægður með Maguire
Ten Hag var ánægður með Maguire
Mynd: Getty Images
„Þetta var gott kvöld. Við spiluðum mjög vel og stjórnuðum leiknum og það er nákvæmlega það sem við erum að leita að,“ sagði Erik ten Hag, stjóri Manchester United, um frammistöðuna í 3-0 sigrinum á Crystal Palace í enska deildabikarnum í kvöld.

United hefur gengið í gegnum erfiðan kafla síðasta mánuðinn en hefur nú unnið tvo leiki í röð.

„Pirringur og vonbrigði fylgja því að ná ekki í sigur og þá verður andrúmsloftið verra. Andinn hefur samt alltaf verið góður og samheldnin var og er til staðar. Það sást í dag.“

„Hvað varðar varnarleikinn, þá tókum við skref fram á við, en við tókum annað skref með samheldninni og hvernig við vorum á boltanum. Þetta er bara byrjunin en þetta er skref í rétta átt,“
sagði Ten Hag.

Sofyan Amrabat spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði United í kvöld, en hann var notaður sem vinstri bakvörður.

„Ég veit að hann er fær um að gera þetta. Hann er leikmaður sem gefur liðinu það sem þarf og leggur sitt að mörkum. Hann kemur með gæði, orku og dýnamík inn í þetta,“ sagði Ten Hag um Amrabat, en hann talaði einnig um frammistöðu Mason Mount, sem var að snúa úr meiðslum.

„Hann er að snúa til baka úr meiðslum þannig við þurfum halda áfram að byggja þetta upp hjá honum. Ef það er farið of geyst í hlutina þá getur komið bakslag og við viljum forðast það. Mér fannst frammistaða hans mjög góð.“

Harry Maguire spilaði í miðri vörn hjá United. Englendingurinn hefur mátt þola sinn skerf af gagnrýni síðustu ár, en hann átti góðan leik ásamt mörgum öðrum.

„Hann var mjög fínn, alveg eins og við var að búast.“

United notaði nokkra unga leikmenn í leiknum og segir hann að allir hafi verðskuldað tækifærið.

„Við vorum með marga unga leikmenn á vellinum og maður sér þá ná framförum. Það er þannig hjá mér að þú færð ekki bara tækifæri, heldur verður þú að verðskulda tækifærið. Þessir leikmenn sem komu inn áttu það skilið og þeir sýna það á hverjum degi á æfingu og þegar þú færð tækifærið þá verður þú að nýta það,“ sagði hann í lokin.
Enski boltinn - Meintur fíll og of sniðugur Arteta
Athugasemdir
banner
banner