Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 27. febrúar 2021 16:15
Victor Pálsson
Gylfi Þór ræðir vandræði Liverpool: Það vantar leiðtoga í liðið
Mynd: Getty Images
Van Dijk er enn meiddur.
Van Dijk er enn meiddur.
Mynd: Getty Images
Vandræði Liverpool í undanförnum leikjum hafa ekki farið framhjá mörgum en Englandsmeistararnir hafa verið í verulegu basli á þessu ári.

Liverpool tapaði síðasta leik sínum 0-2 heima gegn Everton og var þar að tapa fjórða deildarleiknum í röð. Liðið situr í sjötta sæti deildarinnar og er 22 stigum á eftir toppliði Manchester City.

Gylfi Þór Sigurðsson leikur með Everton og var hann á vellinum er liðið vann á Anfield í fyrsta sinn í fjölmörg ár.

Tómas Þór Þórðarson hjá Símanum ræddi við Gylfa í kjölfarið um vandræði Liverpool og var hann á meðal annars spurður út í hvort meistararnir væru einfaldlega þreyttir.

Gylfi segist ekki hafa tekið eftir mikilli þreytu á vellinum en viðurkennir að það sé erfitt fyrir öll lið að missa svo marga leikmenn frá vegna meiðsla.

Virgil van Dijk er einn allra mikilvægasti leikmaður Liverpool en hann hefur verið frá keppni í marga mánuði vegna alvarlegra meiðsla. Að sama skapi eru þeir Joe Gomez, Fabinho og Joel Matip meiddir en þeir geta allir spilað í hjarta varnarinnar.

Liverpool fékk til sín tvo leikmenn í janúarglugganum eða þá Ozan Kabak og Ben Davies til að reyna að fylla skarð meiddra manna.

„Ég sé kannski ekki þreytuna en ég sé að það vantar leiðtoga í liðið og sérstaklega í vörnina," sagði Gylfi.

„Þú getur alltaf sagt að það komi nýr maður inn en það er erfitt að fá nýjan mann inn eins og þeirra besta varnarmann sem er gríðarlegur leiðtogi og einn besti varnarmaður deildarinnar."

„Það er erfitt að fá einhvern inn sem á að fylla það skarð en ég meina svona hlutir gerast fyrir mörg lið. Nokkur slæm úrslit og sjálfstraustið kannski fer svolítið."

„Ég veit ekki hvað þeir hafa spilað marga leiki síðustu tvo ár en þeir hafa verið mjög margir. Þeir fóru langt í Meistaradeildinni og framvegis. Það er hellingur af leikjum og þetta eru allt landsliðsmenn. Þreyta gæti verið smá hluti af þessu en meiðslin eru stærri hluti."


Athugasemdir
banner