Real Madrid ætlar að reyna við Bruno Fernandes - Barcelona vill ekki selja Pedri - Sænskur landsliðsmaður til Man City?
   fim 27. mars 2025 14:37
Innkastið
Eins og Kósovó væri með tíu Xavi á hátindi ferilsins
Icelandair
Íslenska liðið var rasskellt af Kosóvó.
Íslenska liðið var rasskellt af Kosóvó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrsti landsleikjaglugginn hjá Arnari Gunnlaugssyni var alls ekki góður. Íslenska landsliðið var á löngum köflum yfirspilað og tapaði einvíginu mjög sanngjarnt 5-2.

Rætt var vel um leikina tvo í Innkastinu á dögunum. Leikskipulagið í leikjunum virkaði engan veginn og breytingarnar á milli leikja voru margar.

„Þetta eru stórir leikir og við virðumst nota þá sem æfingaleiki til að prófa nýja hluti. Til dæmis þá fer Jói Berg ekki inn á þar sem hann veit hvað hann gerir og getur. Hann tekur Orra út af á 65. mínútu í stöðunni 2-1. Ég hugsaði þá að þetta væri uppgjöf og þessir leikir skiptu engu máli. Það var tilfinningin mín. Þetta var ansi skrítið," sagði Valur Gunnarsson en um var að ræða mikilvæga leiki í Þjóðadeildinni. Leiki sem sannarlega skiptu máli.

„Þetta var vont og maður var pirraður eftir þetta. Mér fannst þetta ekki ósvipuð tilfinning og eftir fyrsta gluggann hjá Arnari Þór Viðarssyni, eins skrítið og það hljómar. Þar töpuðum við gegn Armeníu og í þeim leik var liðið yfirspilað af andstæðingi sem maður hélt að við værum sterkari en. Það gerðist það nákvæmlega sama núna," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson.

Næstu leikir Íslands eru í sumar, vináttulandsleikir gegn Norður-Írlandi og Skotlandi. Það verður að nýta þá leiki gríðarlega vel því svo hefst undankeppni HM í september.

„Það var eins og Kosóvó væri með tíu Xavi á hátindi ferilsins inn á vellinum. Það var eins og allar sendingar væru frábærar sendingar, en staðsetningin á íslensku leikmönnunum var það léleg að hver einasta sending drap okkur," sagði Haraldur Örn Haraldsson í þættinum.

„Ég sé hvað Arnar er að reyna að gera og hef áhyggjur af því. Við erum ekki eitthvað 'possession controlling' lið hérna. Við verðum að fara í ákveðin grunngildi ef við ætlum að gera eitthvað," sagði Valur.

„Arnar Gunnlaugsson er þannig þjálfari að hann þjálfar alltaf út frá sínum gildum, en við sáum Víkingsliðið hans í Evrópuboltanum og hvernig hann hefur þróast í gegnum árin, hvernig hann hefur orðið þéttari varnarlega," sagði Haraldur en vonandi verður íslenska liðið þéttara varnarlega þegar komið er í næsta glugga. Ef Ísland mætir Frakklandi eins og þeir gerðu gegn Kosóvó, þá verður það ljótt svo vægt sé til orða tekið.

Hægt er að hlusta á Innkastið í heild sinni hér fyrir neðan og í öllum hlaðvarpsveitum.
Innkastið - Lestarslys í fyrsta landsliðsglugga Arnars
Athugasemdir
banner