Newcastle hefur áhuga á Jóni Degi - Brighton reynir við Summerville - Tilboði Tottenha í Toney hafnað
   mán 27. maí 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Var að deyja í þrjár vikur" en ætlar nú að spila fótbolta aftur
Hjálpaði Midtjylland að lyfta bikarnum í gær
Kristoffer Olsson.
Kristoffer Olsson.
Mynd: EPA
Olsson á 47 landsleiki að baki fyrir Svíþjóð.
Olsson á 47 landsleiki að baki fyrir Svíþjóð.
Mynd: Getty Images
Sænski miðjumaðurinn Kristoffer Olsson, leikmaður Midtjylland í Danmörku, segist ætla að spila fótbolta á ný þrátt fyrir að hafa lent í alvarlegum veikindum fyrr á þessu ári.

Olsson fór í sitt fyrsta viðtal eftir veikindin í dag, en hann lyfti danska meistarabikarnum með Midtjylland í gær.

Olsson missti meðvitund á heimili sínu þann 20. febrúar síðastliðinn en hann var í öndunarvél á sjúkrahúsi eftir það. Hann var með mikinn fjölda lítilla blóðtappa á báðum hliðum heilans. Það var afleiðing af afar sjaldgæfum bólgusjúkdómi í heilaæðum hans.

Hann er ekki alveg laus af sjúkrahúsi og er enn verið að fylgjast með honum, en að eigin sögn líður honum frábærlega.

„Ég var bókstaflega að deyja í þrjár vikur. Ég man eiginlega ekki eftir neinu," segir Olsson.

Hann segist hafa hugsað strax um fótbolta þegar hann komst aftur til fullrar meðvitundar. „Ég hugsaði um að losna af spítalanum og spila eitthvað undir lok tímabilsins. En svo talaði ég við læknana og áttaði mig á því að þetta tæki tíma."

Olsson segist vera byrjaður að leika sér í fótbolta og hann ætlar sér að spila aftur. „Ég er mjög jákvæður á það og trúi að það muni gerast."

„Það mikilvægasta er að mér líður alltaf betur og betur," segir Svíinn en hann er vongóður um að hann muni ná fullum bata.

Olsson er 28 ára gamall en hann var hjá Arsenal í upphafi ferilsins. Ásamt því að spila með Midtjylland þá hefur hann leikið með AIK í Svíþjóð, Krasnodar í Rússlandi og Anderlecht í Belgíu á ferli sínum. Hann á þá að baki 47 A-landsleiki fyrir Svíþjóð.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner