Brasilíski varnarmaðurinn Gabriel Magalhaes er ekki allra og á hann það oft til að reyna að stuða andstæðinginn en hann ákvað að fagna marki sínu að hætti Viktor Gyökeres í 5-1 stórsigri Arsenal á Sporting í Meistaradeildinni í gær.
Gabriel skoraði þriðja mark Arsenal með skalla eftir hornspyrnu þegar lítið var eftir af fyrri hálfleiknum.
Hann fagnaði markinu með því að setja hendur fyrir andlit, eins og sænski framherjinn Gyökeres er vanur að gera, þegar hann fagnar mörkum sínum.
Svíinn talaði um fagn Gabriel eftir leikinn og gaf honum leyfi til þess að nota fagnið, en ákvað í leiðinni að skjóta létt á varnarmanninn.
„Ég sá ekki hvort hann gerði það eða ekki. Ég veit það ekki,“ sagði Gyökeres, sem bætti síðan við. „Það er svalt að hann sé hrifinn af fagninu mínu og má hann stela því fyrst hann getur ekki búið til sitt eigið,“ sagði hann enn fremur.
Gyökeres hefur skorað 33 mörk með félagsliði og landsliði á þessu tímabili og stefnir hratt að Evrópumeti Lionel Messi sem skoraði 73 mörk á einu tímabili.
Athugasemdir