Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 28. mars 2021 16:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Davíð: Sýndum að við eigum rétt á að vera á þessu móti
Icelandair
Davíð Snorri, þjálfari U21 landsliðsins.
Davíð Snorri, þjálfari U21 landsliðsins.
Mynd: Getty Images
Úr leiknum.
Úr leiknum.
Mynd: Getty Images
Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 landsliðsins, var stoltur af frammistöðu Íslands í 2-0 tapinu gegn Danmörku í dag.

Ísland byrjaði ekki vel en náði að vinna sig inn í leikinn þegar leið á hann. Liðið klúðraði vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og fékk dauðafæri í seinni hálfleik.

„Ég er mjög stoltur af mínu liði," sagði Davíð á fréttamannafundi eftir leik. „Við áttum að skora mark og galopna leikinn. Við ákváðum að leggja áherslu á nokkur atriði sem við vildum laga og við gerðum það heilt yfir í dag."

„Þetta var erfið byrjun en við vinnum okkur út úr því. Við fengum tækifæri til að snúa leiknum enn betur okkur í vil og við áttum að skora á Danina í dag."

„Ég er stoltur af mínu liði fyrst og fremst þó við séum svekktir með úrslitin. Við skildum alltaf eftir á vellinum."

Aftur spilaði liðið mun betur í seinni hálfleik en fyrri hálfleikurinn hefur ekki verið besti vinur íslenska liðsins á mótinu.

„Við ætluðum að spila sterka vörn og loka ákveðnum svæðum. Það eru ýmis augnablik sem geta breytt leikjum. Við ætluðum að loka ákveðnum svæðum í fyrri hálfleik og gerðum það vel. Við unnum okkur inn í leikinn. Það eru tvö góð lið að spila, Danir gerðu vel. Þeir skora eftir fast leikatriði og við eigum alltaf að geta komið í veg fyrir það. Mér finnst við alltaf vera 'on' en það eru augnablik í leiknum sem verða betri."

„Við töluðum saman í seinni hálfleik um hvernig við gætum stigið hærra og það gekk vel. Við fórum allir saman í þetta," sagði Davíð.

„Það er hluti af leiknum við Rússland sem var ágætlega gerður. Það eru batamerki í litlum atriðum sem við gerðum betur saman. Við vorum einbeittari í einn á móti einum, það var styttra á milli manna til að taka hjálparvörn, þegar við fórum saman þá fórum saman upp og þegar við vorum niðri þá vorum við saman niðri. Í dag náðum við að taka fleiri augnablik þar sem við vorum saman. Við áttum alltaf að skora mark sem hefði galopnað þennan leik."

Davíð var spurður hvað hann hefði verið helst ánægðastur með og sagði hann: „Eftir erfiða byrjun á mótinu vorum við búnir að tala um það að við höldum alltaf áfram. Við erum með góða liðsheild, við erum með góða leikmenn - það má ekki gleyma því - og við sýndum í dag að við eigum rétt á að vera á þessu móti. Ég er ánægður hvernig við vinnum okkur út úr mótlæti, hvernig við klárum atriði sem við vildum laga úr síðasta leik og viðhorfið í liðinu að fara alla leið og ætla sér. Það var frábært að sjá neistann í mönnum í dag."

Næsti leikur Íslands er Frakkland á miðvikudag. Það er síðasti leikurinn í riðlinum en möguleikarnir eru ekki miklir - varðandi það að komast áfram - fyrir þann leik.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner