
,,Mér fannst mikil bót í okkar leik frá því síðast. Við erum búnar að vinna í að hækka okkur upp völlinn. Mér fannst það ganga ágætlega upp núna, við vorum ekki að falla niður miðjuna eins og við höfum verið að gera og vorum að verja vörnina sem er eins og það á að vera," sagði Björn Kristinn Björnsson þjálfari HK/Víkings eftir 2-2 jafntefli við FH í Víkinni í kvöld.
,,Þetta var bara leikur á milli tveggja liða sem eru á mjög svipuðum stað, við fáum fín færi til að klára þennan leik í fyrri hálfleik, fjögur mjög góð færi og þá er ég að tala um dauðafæri. Það er dýrt að klára ekki færin en við erum að fá færi. Ég er að vísu pirraður að ná ekki þremur stigum úr þessu en það er samt margt gott og okkur hlakkar til að spila næsta leik á móti Val."
Eins og Björn Kristinn minnist á er næsti leikur liðsins á móti Val en þar mætir hann dætrum sínum, Björku og Laufeyju sem spila með Val, hvernig verður það?
,,Það verður bara fínt, það er ekkert í fyrsta skiptið. Það verður bara tekið á þeim, annars fá þær ekkert að éta, það verður enginn matur, ekkert læri og það er bara búið," grínaðist hann.
,,Nei nei, þetta er bara fótbolti og þær eru að spila þarna. Ég fer í minn leik og við horfum á okkar lið því við þurfum fyrst og fremst að horfa á okkar lið. Stúlkurnar verða að hætta að stressa sig á hvað hinn aðilinn er að gera, og hvað þær ætla að gera og hvaða leikmenn hann hefur og hvaða stjörnur hann hefur. Við þurfum að hugsa meira um það sem við ætlum að gera eins og við gerðum fyrir þennan leik og ég held að hafi heppnast að hluta til."
Nánar er rætt við hann í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir