„Ég er ekki sáttur með þennan leik. Við höfum spilað betur en í dag. Við fengum fullt af færum og við skoruðum tvö mörk en aðallega var það varnarleikurinn sem drepur okkur í dag. Við fáum allt of mörg mörk á okkur sem við hefðum getað komist í veg fyrir. Þetta er bara einn stakur leikur og við mætum bara aftur á æfingu á morgun og síðan eigum við Gróttu á miðvikudaginn þar sem þrjú stig eru í boði og við ætlum að taka þau.“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir fyrsta tapleik þeirra í sumar í deildinni.
Lestu um leikinn: Afturelding 2 - 5 ÍA
Eftir að þið minnkuðuð muninn í 2-1 ná þeir að skora þrjú mörk á átta mínútum, hvað fannst þér gerast þegar þið fáið þessi mörk á ykkur?
„Við ætluðum að jafna, kannski vorum við of æstir í það. Dekkningin var ekki nógu góð í föstu leikatriðunum. Viktor er náttúrulega frábær framherji og tekur færin sín vel. Skagamenn eru líka með gott lið og gera vel í dag. En svona er bara fótboltinn. Á einhverjum öðrum degi hefðum við jafnað þetta. Við höfum mikla trú á því sem við erum að gera og það er bara að halda áfram, næsti leikur.“
Þið eruð núna með 8 stiga forskot á toppnum, er ennþá mikil jákvæðni í hópnum þrátt fyrir þetta slæma tap í kvöld?
„Já ekki spurning. Við vorum búnir að vinna marga leiki fram að þessum þannig við höldum bara áfram. Þetta er fyrsta tapið okkar í sumar í 14. umferð. Ég hefði tekið því fyrir mót. Við erum í góðri stöðu og erum búnir að spila vel undanfarið. Við munum laga það sem fór úrskeðis í kvöld fyrir næsta leik og áfram gakk.“
Þið hafið fengið eitt stig af sex mögulegum gegn Skaganum í sumar, er eitthvað erfiðara að keppa gegn þeim en öðrum liðum?
„Nei alls ekki. Bara hörkulið þetta Skagalið. Við vorum 2-1 yfir upp á Skaga þegar við fáum ósýnilegt rautt spjald á 90. mínútu. Í dag hefðu þeir getað fengið rautt spjald sem að þeir fengu ekki. Sem er pjúra rautt spjald í stöðunni 2-0 þegar Arnór Gauti er kominn einn í gegn. Mér er alveg sama þótt að það standi einhverjir varnarmenn 10 metrum til hliðar því þeir eru ekki að fara að bjarga neinu og þetta er rautt spjald samkvæmt bókinni. Dómarinn las bara vitlaust í leikinn því Arnór Smárason átti að fá rautt spjald þar. En áfram gakk það er bara næsti leikur.“
Arnór Gauti tekinn útaf eftir klukkutímaleik, er einhver ástæða fyrir því?
„Hann var bara smá tæpur. Við vildum líka fá frískar lappir inn. En eins og ég segji þá gerist það bara rétt á undan að hann er kominn einn í gegn og hann er klipptur niður. Þannig mögulega hefði hann sett mark þar ef hann hefði fengið sénsinn á því. En hann fékk það ekki og það er eins og það er.“
Sævar Atli kom inn á og fór útaf aftur 5 mínútum seinna vegna meiðsla, veistu eitthvað hvort það sé alvarlegt eða ekki?
„Nei ég held að það sé ekki alvarlegt. Hann fékk bara spark í hnéið og ég vona að hann verði orðinn góður fyrir miðvikudaginn.“
Þið eigið núna Gróttu á heimavelli næst, hvernig lýst þér á framhaldið?
„Bara mjög vel. Við erum mjög brattir. Við erum búnir að spila mjög vel í sumar og þessi árangur sýnir það og við höfum mikla trú á því sem við erum að gera. Við viljum miklu meira. Við erum komnir núna með 35 stig en við viljum miklu meira og við byrjum á því með því að vinna Gróttu á miðvikudaginn.“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir fyrsta tapleik þeirra í sumar.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.























