Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   lau 28. ágúst 2021 19:49
Elvar Geir Magnússon
KSÍ fundaði í allan dag - „Verða að eiga sér stað breytingar"
Guðni Bergsson formaður KSÍ og Magnús Gylfason stjórnarmaður.
Guðni Bergsson formaður KSÍ og Magnús Gylfason stjórnarmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í dag.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjórn KSÍ hittist í hádeginu og fundaði í allan dag. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var hart tekist á. Gagnrýnt hefur verið hvernig tekið hefur verið á ofbeldismálum landsliðsmanna hjá sambandinu og KSÍ hefur ekkert tjáð sig um málið í dag.

Á Twitter síðu sambandsins í kvöld var svo greint frá því að fundinum verði framhaldið á morgun, sunnudag.

Staða Guðna Bergssonar formanns er óljós og ótrygg en í gær var opinberað í fréttum RÚV að honum var tilkynnt um um ofbeldi og kynferðislega áreitni af hálfu landsliðsmanns. Sjálfur sagði Guðni í Kastljósinu á fimmtudagskvöld að engar kvartanir hefðu borist sambandinu. Hann viðurkenndi svo í fréttatíma í gær að hafa farið með rangt mál.

Hluteigendur að málinu eiga að axla ábyrgð
ÍTF (Íslenskur toppfótbolti), hagsmunasamtök félaga í efstu deildum á Íslandi, hefur einnig fundað í dag. Samtökin tilkynntu aðildarfélögum sínum í tölvupósti í dag að verið væri að afla upplýsinga um málefni stjórnar KSÍ.

„Það er skoðun stjórnar ÍTF að hluteigendur að málinu eigi að axla ábyrgð," segir í póstinum. ÍTF hyggst svo boða til formannafundar við fyrsta tækifæri.

Lilja segir að það verði að eiga sér stað breytingar
Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra íþróttamála, segir í samtali við RÚV að hún muni óska eftir skýringum frá KSÍ. Hún segir mikilvægt að nálgast málið af mikilli festu.

„Það er alveg ljóst að það verða að eiga sér stað breytingar," segir Lilja og kallar eftir því að „þessi menning verði upprætt".

Þórhildur Gyða Arnardóttir, sem steig fram í viðtali við RÚV, stendur við frásögn sína af því að lögmaður á vegum KSÍ hafi haft samband við sig og beðið um þagnarskyldu.

Víða pottur brotinn
Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis, skrifaði samantekt sem birt var í dag undir fyrirsögninni „Hetjur innan vallar en víða pottur brotinn utan vallar".

Þar fjallar hann um þær sögur sem hafa verið að ganga um nokkra leikmenn íslenska landsliðsins. Meðal annars er fjallað um málefni þess landsliðsmanns sem Þórhildur talar um í sinni frásögn.

„Mál hennar er enn eitt málið sem tengist íslenskum knattspyrnumönnum sem ýmist hafa flotið undir yfirborðinu eða eru komin upp á það," skrifar Kolbeinn Tumi.

Stærsta málið sé án nokkur vafa mál Gylfa Þórs Sigurðssonar sem hefur verið undir rannsókn lögreglunnar í Manchester. Engin yfirlýsing hefur komið frá Gylfa eða úr hans herbúðum.

Þá hafa tveir reyndir landsliðsmenn til viðbótar verið sakaðir um nauðgun án þess að vera nefndir á nafn og enn fleiri sögur eru kraumandi.

Kallar eftir afsögn stjórnar KSÍ
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, framhaldsskólakennari og forkona jafnréttisnefndar KÍ, hefur verið mjög gagnrýnin á KSÍ en í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag kallaði hún eftir því að stjórn sambandsins myndi stíga til hliðar.

Í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í dag var rætt um stöðu mála innan KSÍ en hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér að neðan eða í gegnum hlaðvarpsveitur.
Útvarpsþátturinn - Spjótin beinast að KSÍ og Ronaldo rauður á ný
Athugasemdir
banner
banner