Arsenal heimsækir Manchester City í stórleik helgarinnar á páskadag en þar mætast fyrrum samstarfsfélagarnir Mikel Arteta og Pep Guardiola.
Arteta var aðstoðarmaður Guardiola hjá Man City frá 2016-2019 áður en hann tók við sem stjóri Arsenal.
Hann hrósaði Guardiola í hástert fyrir leikinn og segir m.a. að hann hafi aldrei skemmt sér jafn vel og í kringum Guardiola.
„Að mínu mati er hann langbesti þjálfari í heimi og er einn vingjarnlegasti einstaklingurinn sem ég hef kynnst í fótboltanum, einn af þeim sem ég hef skemmt mér og hlegið með í vinnunni, það mun fylgja mér að eilífu," sagði Arteta.
„Maður má ekki hugsa öðruvísi um manneskjuna en faglega verður maður að bera sig öðruvísi. Ég myndi helst vilja gera þetta á móti einhverjum öðrum. Þetta er ekki val svona er þetta bara."
„Við viljum vinna, við þekkjum hvorn annan mjög vel og við undirbúum leikinn til að vinna hann. Ég veit hversu mikla ástríðu hann hefur fyrir leiknum, hversu gáfaður hann er, hvernig hann meðhöndlar liðið og félagið og hversu miklu hann krefst af liðinu," sagði Arteta að lokum.