Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 29. maí 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Agbonlahor: Mun hata Di Matteo alla mína ævi
Agbonlahor lék fyrir Villa allan ferilinn. Petrov var lykilmaður hjá Celtic í sjö ár áður en hann skipti yfir í enska boltann.
Agbonlahor lék fyrir Villa allan ferilinn. Petrov var lykilmaður hjá Celtic í sjö ár áður en hann skipti yfir í enska boltann.
Mynd: Getty Images
Framherjinn leiftursnöggi Gabriel Agbonlahor spilaði 391 leik á ferli sínum hjá Aston Villa og skoraði 86 mörk.

Frá 2006 til 2012 var búlgarski miðjumaðurinn Stiliyan Petrov samherji Agbonlahor hjá Aston Villa en veiktist af hvítblæði og þurfti að hætta knattspyrnuiðkun 32 ára gamall.

Hann fékk starf í akademíunni hjá Villa og vann baráttuna við hvítblæðið en bætti á sig mikilli þyngd sem hann þurfti að losa sig við til að snúa aftur í atvinnumennsku. Petrov var orðinn 37 ára gamall en Roberto Di Matteo var við stjórnvölinn og leist ekki á þá hugmynd. Þess í stað bauð hann Petrov þjálfarastarf, sem Búlgarinn afþakkaði.

„Ég mun hata Di Matteo alla mína ævi fyrir þetta. Hvaða stjóri sem er með smá hjarta hefði gefið honum eins eða sex mánaða skammtímasamning," sagði Agbonlahor við ThreesixtyTV.

„Maður þarf að vera hjartalaus til að gefa honum ekki einu sinni tækifæri. Ímyndaðu þér að sigrast á þessum hræðilegu veikindum, koma þér í form eftir að hafa bætt 50kg á þig vegna veikindanna og fá ekki tækifæri. Hann æfði með okkur á undirbúningstímabilinu og gerði sömu æfingar og allir aðrir."

Agbonlahor var ekki sáttur á sínum tíma og lét Di Matteo heyra í sér. Ítalinn entist aðeins fjóra mánuði áður en hann var rekinn frá Aston Villa eftir einn sigur úr tólf leikjum og hefur ekki þjálfað síðan.

„Ég sagði við Di Matteo: 'Hvað ertu að gera? Hvernig geturðu ekki...?'. Enn þann dag í dag get ég ekki lýst þessum manni. Ef ég sé hann einhvern tímann aftur mun ég segja: 'Þú ert aumingi fyrir að hafa ekki gefið honum eitthvað.'"
Athugasemdir
banner
banner
banner