Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 29. maí 2023 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Faðir McKennie birti ruglingslega færslu eftir fall Leeds
Weston McKennie í leik með Leeds
Weston McKennie í leik með Leeds
Mynd: EPA
John McKennie, faðir Weston Mckennie hjá Leeds, birti afar ruglingslega færslu á Twitter eftir að fall félagsins niður í B-deildina var staðfest í gær.

Weston, sem er á láni frá Juventus, átti ekki sitt besta tímabil á ferlinum.

Hann var í raun afar slakur og náði aldrei að finna sig ekkert frekar en margir aðrir í liðinu.

Faðir hans gerði það sem feður gera og varði son sinn allt tímabilið þegar sonur hans var gagnrýndur en það var færslan eftir fallið sem fáir botnuðu í.

Hann endurbirti þá myndband af górillunni Harambe og skrifaði texta með myndbandinu.

„Óska Leeds alls hins besta. Þið sem sýnduð Weston stuðning í þessu fjandsamlega umhverfi fáið alla mína virðingu en þið sem gleymduð því að þetta væri liðsíþrótt haldið áfram að lifa lífi ykkar fram að næsta bardaga,“ sagði McKennie.

Það var svo sem ekkert athugavert við ummælin en myndbandið af Harambe vakti þónokkra umræðu. Var tæknin að stríða McKennie eða var Harambe einnig í fjandsamlegu umhverfi í dýragarðinum í Cincinnati?

Það má vera. Hann var drepinn þann 28. maí 2016 eftir að þriggja ára drengur féll niður í búsvæði Harambe. Ákveðið var að taka górilluna af lífi þar sem deyfing hefði tekið of langan tíma að virka og óvíst hvort barnið hefði lifað af. Harambe var órólegur og til alls líklegur en enn og aftur er algjörlega óvitað hvað McKennie gekk til með að birta myndbandið nú sjö árum frá dauða Harambe.


Athugasemdir
banner
banner
banner