Gríðarleg mótmæli hafa staðið yfir hjá almenningi í Brasilíu síðustu vikur í tengslum við Álfukeppnina. Í viðtali við Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamann RÚVm sem hægt er að hlusta á í spilaranum hér að ofan er þetta meðal annars rætt.
„Þessi gremja er skiljanleg. Fólki finnst stjórnvöld ekki hafa gert nóg til að byggja upp menntakerfið, heilbrigðiskerfið, vegagerð og berjast gegn glæpum. Þegar kemur að heimsmeistaramóti er ekkert mál að ryðja fátæklingum í burtu til að byggja völl. Þetta fer fyrir brjóstið á mörgum," segir Einar.
„Meðan augu heimsbyggðarinnar eru á mótinu þá notar fólk tækifærið til að mótmæla. Það er skiljanlegt og eðlilegt meðan þetta fer ekki úr böndunum. Þjálfari og leikmenn Brasilíu hafa sagst styðja mótmælendur í einu og öllu."
HM verður á næsta ári og er óttast að enn meiri mótmæli verði í borgum Brasilíu þá enda fer keppnin fram í landinu.
„Það verður enn meiri athygli á Brasilíu á næsta ári. Það eru áhyggju-svitadropar á efri vörum manna hjá FIFA yfir því hvernig þetta verður á næsta ári. Vonandi munu brasilísk stjórnvöld og aðrir hafa skynsemina að leiðarljósi."
Í viðtalinu er einnig rætt um úrslitaleikinn á morgun sem er milli Brasilíu og Spánar.
Athugasemdir