Arsenal sýnir Nkunku áhuga - Chelsea vill Gittens - Everton vill endurheimta Richarlison
   þri 29. ágúst 2023 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Aldrei upplifað annað eins - „Eins gott að hann svaraði símanum"
Óskar ætti að vera klár í næsta leik
Lengjudeildin
Hilmar Örn Pétursson var í markinu hjá Þrótti gegn Gróttu.
Hilmar Örn Pétursson var í markinu hjá Þrótti gegn Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Sjúkrabíll mætti á Seltjarnarnesið og náði í Svein Óla..
Sjúkrabíll mætti á Seltjarnarnesið og náði í Svein Óla..
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Ian Jeffs, þjálfari Þróttar, hér lengst til hægri.
Ian Jeffs, þjálfari Þróttar, hér lengst til hægri.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Þróttur fagnar marki gegn Gróttu.
Þróttur fagnar marki gegn Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr stúkunni í Þróttheimum.
Úr stúkunni í Þróttheimum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég bjóst ekki við því að við myndum missa báða markverðina," sagði Ian Jeffs, þjálfari Þróttar, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Það kom upp sú erfiða staða hjá Þrótturum í síðasta leik gegn Gróttu að liðið missti tvo markverði í meiðsli. Óskar Sigþórsson átti að byrja en hann meiddist í upphitun. Svo meiddist Sveinn Óli Guðnason, sem kom inn í liðið, eftir fimm mínútur.

Það reyndist því afskaplega sniðugt hjá Þrótturum að hafa kallað hinn 18 ára gamla Hilmar Örn Pétursson inn í hópinn áður en leikurinn hófst. Hann var nýmættur á Seltjarnarnes þegar hann var kominn inn á völlinn.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi í þessu. Ég hef aldrei séð svona sem leikmaður eða þjálfari. Það hefur gerst að markvörður meiðist í upphitun en þá kemur hinn markvörðurinn inn og klárar vanalega leikinn. Ég hef aldrei séð það að markvörður sem var að fara að byrja út af komi inn og meiðist svo eftir fimm mínútur," segir Jeffs en hann hrósar starfsfólkinu í kringum sig fyrir að hafa brugðist vel við þegar Óskar meiddist í upphitun.

Ég vil hrósa mínu teymi fyrir það
„Ég verð að hrósa mínu þjálfarateymi og liðsstjóra sem benti mér á að það yrði mjög gott að heyra í Hilmari, sem var ekki á skýrslu. Það var hægt að bæta honum inn. Ég vil hrósa mínu teymi fyrir það, þetta var virkilega gott hjá þeim."

„Við náðum að leysa þetta með að fá Hilmar inn og hann fór beint í djúpu laugina. Hann stóð vaktina vel. Við hringdum í hann en það er ekki alltaf hægt að ná í fólk klukkan sjö á föstudagskvöldi. Þú veist aldrei hvað leikmenn sem eru ekki í hóp eru að gera. Það var eins gott að hann svaraði símanum og var klár. Það er mikið hrós sem fer til hans. Hann er duglegur og flottur strákur, og við erum heppin að hann sé hjá okkur."

Jeffsy segir að Þróttur verði ekki að notast við neyðarlán fyrir markvörð fyrir þrjár síðustu umferðirnar í Lengjudeildinni. Hann býst við því að Óskar verði klár í næsta leik og að meiðsli Sveins Óla séu ekki eins alvarleg og þau litu út fyrir að vera.

„Við erum bjartsýnir á það að Óskar verði klár fyrir næsta leik. Ég held að það sé aðeins lengra í Svenna, en það er ekki eins alvarlegt og það leit út fyrir að vera. Hann fór með sjúkrabíl en ég held að það sé ekki mjög alvarlegt. Hann er tognaður en verður vonandi klár í hópinn fyrir leikinn á móti Vestra. Óskar á að vera klár fyrir næsta leik og við erum ekki í neinu neyðarástandi varðandi markvarðarmálin. Við erum líka með Hilmar sem kom inn á og stóð sig vel. Við treystum þessum tveimur markvörðum í næsta leik," segir hann.

Þrír úrslitaleikir eftir
Þjálfari Þróttara er vongóður um að liðið nái að halda sér uppi. Eftir að hafa náð í stig á móti Gróttu þá er liðið ekki lengur í fallsæti, en Þróttur er með jafnmörg stig og Selfoss sem er núna á fallsvæðinu ásamt Ægi.

„Það er mikil barátta og mikil spenna í þessu. Þessir þrír leikir eru úrslitaleikir fyrir okkur. Við erum með tvo heimaleiki og við höfum spilað mjög vel á heimavellinum okkar í sumar. Við erum vongóðir og bjartsýnir á það að við getum safnað stigum og að við náum að halda okkur í þessari deild. Ég sé alveg fyrir mér að þetta ráðist í lokaumferðinni og það eru tvö, þrjú og jafnvel fjögur lið sem eru að berjast um þetta. Næsti leikur er á móti Grindavík og það eina sem ég er að hugsa um er að reyna að ná í þrjú stig þar."

Þróttur spilar næst við Grindavík, fer svo vestur á Ísafjörð áður en liðið tekur á móti Aftureldingu í lokaumferðinni.

„Mér finnst mætingin hafa verið góð á völlinn í sumar. Bráðabirgðastúkan á æfingasvæðinu okkar er alltaf full. Við vonumst til að fólk mæti vel að styðja okkur í þá leiki sem eftir eru, og verði okkar tólfti maður í baráttunni um að halda sætinu okkur," sagði Jeffsy að lokum.
Athugasemdir
banner
banner