De Gea, Ramsdale, Guirassy, Nketiah, Varane, Maignan og fleiri í pakka dagsins
banner
   fös 29. september 2023 10:00
Sverrir Örn Einarsson
Ísfirðingar ekki alveg ókunnugir efstu deild
Lengjudeildin
watermark Leikmannahópur ÍBÍ tímabilið 1983
Leikmannahópur ÍBÍ tímabilið 1983
Mynd: Skjáskot tímarit.is
watermark Bjarni Jóhannsson lék með ÍBÍ á árunum 1981-1982
Bjarni Jóhannsson lék með ÍBÍ á árunum 1981-1982
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Atli Einarsson steig sín fyrstu skref með meistaraflokki á Ísafirði
Atli Einarsson steig sín fyrstu skref með meistaraflokki á Ísafirði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Knattspyrnulið Íþróttfélagsins Vestra frá Ísafirði leikur á morgun laugardag einn mikilvægasta leik sumarins í íslenskum fótbolta. Leikið er gegn Aftureldingu úr Mosfellsbæ í úrslitum umspils Lengjudeildarinnar þar sem í húfi er sæti í Bestu deildinni að ári með því fjármagni sem því fylgir, en leikurinn hefur verið nefndur 50 milljón króna leikurinn. Hvorugt bæjarfélag á sér ríka sögu af fótboltaliðum í efstu deild karla, raunar hefur Mosfellsbær aldrei átt slíkt þó vissulega hafi kvennalið félagsins leikið nokkur tímabil í efstu deild. Hvað Ísafjörð varðar er sagan þó öllu ríkulegri þó reyndar sé hún ekki löng.

Íþróttabandalag Ísafjarðar einnig þekkt sem ÍBÍ sendi lið til þáttöku í nýstofnaðri 2.deild árið 1955. Liðið varði fyrstu árum sínum í norðurriðli 2.deildar sem var landshlutaskipt á þessum árum. Fyrirkomulagið var að sigurvegarar norður og suður riðla mættust í úrslitaleik um sæti í 1.deild og lék ÍBÍ alls fjórum sinnum til úrslita frá 1955-1960 en beið lægri hlut í hvert skipti, ýmist á vellinum eða dómsölum en það er önnur saga. Það breyttist þó tímabilið 1961 þegar liðið í fimmtu tilraun tryggði sér sæti í efstu deild með 7-3 sigri á Keflavík.

Dvöl ÍBÍ í efstu deild í það skiptið varð ekki löng né gleðileg. Í 10 leikja móti fengu þeir alls eitt stig, skoruðu 2 mörk, fengu á sig 36 mörk og féllu beint aftur í 2.deild á sannfærandi máta. Vissulega afrek út af fyrir sig að sjö ára gamalt félag léki í efstu deild gegn Reykjavíkurstórveldunum og Skagamönnum en líklega aðeins of stórt verkefni fyrir Ísfirðinga á þeim tíma.

Sögu ÍBÍ í efstu deild lauk þó ekki þar, vissulega tóku við ár þar sem liðið var í basli í 2.deild, féll jafnvel niður í 3.deild nokkrum sinnum en kom alltaf jafnharðan upp á ný. Það var svo árið 1981 sem liðið tryggði sér á ný sæti í efstu deild. Deildarfyrirkomulagið var orðið í takt við það sem þekkjum í dag þar sem tvö efstu lið deildarinnar fóru upp í 1.deild og fór svo að ÍBÍ endaði í 2.sæti deildarinnar og tryggði sér þar með sæti í efstu deild á ný eftir tuttugu ára fjarveru.

Það má alveg segja að tímabil ÍBÍ í efstu deild árið 1982 hafi verið ásættanlegt og vel það. Sterkur sigur á verðandi Íslandsmeisturum Víkinga í þriðju umferð gaf tóninn um það að liðið væri alls ekki mætt eingöngu til þess að vera með. Að loknum umferðunum 18 endaði liðið í 5 sæti deildarinnar með 17 stig en hafa ber í huga að aðeins voru veitt tvö stig fyrir sigur á þessum árum. Áframhaldandi vera í efstu deild því staðreynd og menn eflaust miðað hærra fyrir tímabilið 1983 sem framundan var.

Sumarið 1983 varð þó ekki jafn gleðilegt og árið á undan. Framan af móti var gengi liðsins þokkalegt og 1-0 sigur á liði ÍA Í sjöttu umferð mótsins gaf mönnum mögulega tilefni til bjartsýni. Allt hrökk þó í baklás eftir þann sigur Ísfirðinga sem ekki unnu annan leik í mótinu eftir þetta. Að afloknum umferðunum 18 fór það enda svo að lið ÍBÍ sat á botni deildarinnar með 13 stig, 4 stigum frá öruggu sæti og fall í 2.deild því staðreynd.

Þó nokkra áhugaverða leikmenn var að finna í liði ÍBÍ á þessum árum, sumir af þeim hafa litað íslenska knattpyrnu svo um munar á sínum ferli síðan. Einn þeirra er Norðfirðingurinn Bjarni Jóhansson sem gekk til liðs við lið ÍBÍ frá Þrótti Neskaupsstað fyrir tímabilið 1982. Bjarni hefur síðan eins og flestir ættu að þekkja náð prýðisárangri í þjálfun og meðal annars þjálfað lið Vestra nokkur tímabil.

Þá var í leikmannahópi liðsins 16 ára gamall Atli Einarsson sem síðar varð Íslandsmeistari með liði Vikinga 1991 og lék fjóra landsleiki fyrir Íslands hönd. Þess má geta að Atli er faðir Nadíu Atladóttur fyrirliða bikarmeistara Víkinga og Patriks Snæs Atlasonar sem er kannski betur þekkur undir heitinu Prettyboitjokko.

Þá verður einnig að minnast á Jón Oddsson framherja liðsins. Afburðaríþróttamaður þar á ferð sem skaraði fram úr á fjölmörgum sviðum og lék einn landsleik fyrir Íslands hönd gegn Vestur-Þjóðverjum. Ásamt því að leika knattspyrnu var Jón afreksmaður í frjálsum íþróttum og á fjölmarga Íslandsmeistaratitla í greinum eins og langstökki, hástökki og fimmþraut svo eitthvað sé nefnt. Þá lék hann einnig í efstu deild í körfubolta og varð meðal annars Íslandsmeistari með Val árið 1980.

Lið ÍBÍ var lagt niður eftir tímabilið 1987 og færðust leikmenn liðsins yfir til BÍ sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. BÍ sem við það tækifæri fékk nafnið BÍ 88 varð síðar að BÍ/Bolungarvík sem að endingu fékk nafnið Vestri við sameiningu íþróttafélaga á Ísafirði árið 2016.

Úrslitaleikur Vestra og Aftureldingar fer fram á Laugardalsvelli á morgun en flautað verður til leiks klukkan 16:00

Tryggðu þér miða hér

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner