
Manchester United hafnaði mettilboði Arsenal í framherjann öfluga Alessia Russo.
Russo er talin til bestu leikmanna heims um þessar mundir og leikur lykilhlutverk í sterku liði Man Utd og enska landsliðinu.
Hún virðist þó ekki ætla að halda áfram hjá Rauðu djöflunum eftir að samningsviðræður sigldu í strand. Russo, sem rennur út á samningi næsta sumar, er með nokkur samningstilboð úr bandarísku deildinni.
Arsenal vildi krækja í Russo á undan öðrum með því að borga metfé fyrir hana, en metfé fyrir félagsskipti í kvennaboltanum eru 400 þúsund pund.
Man Utd er ekki tilbúið til að missa lykilmann sinn á mikilvægum tímapunkti í titilbaráttu ensku ofurdeildarinnar, þar sem Russo og stöllur drottna á toppinum en eru enn í harðri baráttu við Chelsea, Arsenal og mögulega Manchester City.
Sky Sports greinir frá þessu en óljóst er hvort Arsenal ætli að leggja fram annað tilboð í Russo, sem verður 24 ára í febrúar.