Breiðablik vann KA 3-1 í dag og eru þar af leiðandi meistarar meistaranna. Valgeir Valgeirsson leikmaður Breiðabliks spilaði allan leikinn í dag í skelfilegu veðri.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 KA
„Ég er mjög ánægður, geggjað að geta unnið þennan leik, fyrir fyrsta leik í deildinni. Það var mikilvægt fyrir okkur að geta unnið og sýnt fram á hvað við erum að fara bjóða upp á í deildinni. Við erum mjög tilbúnir í þetta, og tilbúnir í fyrsta leik."
Það var grenjandi rigning, rok, þrumur og eldingar á köflum í leiknum. Krefjandi aðstæður en Valgeiri fannst þetta bæði erfitt og gott.
„Það var gott veður í fyrri hálfleik sérstaklega en svo í seinni hálfleik kom aðeins slæmt veður og við fengum mótvindinn á okkur sem var smá krefjandi. Við þurfum bara að vera sterkari þegar þessi kafli kemur. Þetta getur alveg gerst aftur einhvertíman í deildinni í sumar. Þannig við þurfum bara að vera tilbúnir þegar þetta kemur fyrir aftur og gera betur."
Valgeir kemur nýr inn í liðið ásamt nokkrum öðrum. Breiðablik varð Íslandsmeistari á síðasta tímabili en Valgeir er staðráðinn í því að endurtaka leikinn með þeim svo hann fái að upplifa það líka.
„Við erum allir tilbúnir í að taka þennan titil aftur. Ég, Óli, Anton Logi og Ágúst erum bara ógeðslega tilbúnir í þetta tímabil, og erum bara tilbúnir að taka þennan titil aftur."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.