Luis Enrique, þjálfari Paris Saint-Germain, var eðlilega ánægður með frammistöðu sinna manna í 1-0 sigrinum á Arsenal í fyrri undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Emirates í gær.
Mark Ousmane Dembele snemma leiks skildi liðin að og gat PSG bætt við fleiri mörkum undir lokin en sætti sig við að fara með eins marks forystu inn í seinni leikinn.
„Það eru miklar tilfinningar á þessu stigi og í svona leikjum þannig það er erfitt að greina þetta, en andrúmsloftið var frábært og við sýndum hvers konar lið við erum. Við reyndum að spila okkar bolta og skoruðum mark snemma með því að spila eins og við erum vanir að gera. Seinni leikurinn verður samt mjög erfiður,“ sagði Enrique.
Gianluigi Donnarumma átti flottan leik í markinu og varði í tvígang mjög vel. Ítalinn er líklega að eiga sitt besta tímabil í PSG-treyjunni og segir Enrique að menn séu að leggja sig mikið fram til að ná árangri.
„Þetta er í verkahring markvarðarins ekki satt? Að bjarga liðinu og á hverjum degi leggja þeir hart að sér að gera það.“
Einbeiting Enrique er strax komin á seinni leikinn, en hann vill ekki fagna of snemma.
„Ég held að það sé ekki mikilvægt á þessu augnabliki þegar þú finnur þessa orku. Við þurfum að undirbúa okkur fyrir seinni leikinn, sem verður ótrúlega erfiður. Þessi úrslit þýða að við erum með smá forskot, en við munum þjást og við vitum það. Ég tel okkur geta komist í úrslitaleikinn, en það er enn einn leikur eftir,“ sagði Enrique.
Athugasemdir