Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 30. júlí 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Monchi: Chelsea hætti við Koundé
Mynd: EPA

Það hefur verið mikið rætt um félagsskipti franska miðvarðarins Jules Koundé frá Sevilla. Hann gekk í raðir Barcelona á dögunum eftir að hafa virst vera á leið til Chelsea.


Fjölmiðlar vilja meina að Sevilla hafi samþykkt kauptilboð frá Chelsea og að Koundé hafi frekar ákveðið að bíða eftir tilboði frá Barcelona heldur en að skrifa undir hjá Chelsea.

Monchi, yfirmaður íþróttamála hjá Sevilla, segir ekkert vera til í þessu.

„Við vorum í viðræðum við Chelsea í heilan mánuð og Jules komst loksins að munnlegu samkomulagi við félagið í síðustu viku. Þegar allt var klappað og klárt ákvað Chelsea að taka skref til baka í viðræðunum þar sem félagið sagðist ekki vera öruggt um að Jules væri rétti leikmaðurinn," sagði Monchi.

„Chelsea efaðist um Jules og þá skarst Barcelona inn í leikinn á mánudaginn. Mateu Alemany lagði fram tilboð sem okkur þótti of lágt en við komumst að samkomulagi eftir góðar viðræður. Chelsea lagði í kjölfarið fram annað tilboð en það var lægra heldur en tilboðið frá Barca svo við höfnuðum því. Á endanum var þetta hæsta upphæð sem félagið hefur nokkurn tímann fengið fyrir sölu á leikmanni."

Hinn 23 ára gamli Koundé lék 133 leiki á þremur árum hjá Sevilla og hefur auk þess spilað 11 A-landsleiki fyrir Frakkland á síðustu 14 mánuðum.


Athugasemdir
banner
banner
banner