Nú er í gangi leikur FCK og Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni en spilað er í níundu umferð deildarinnar. Orri Steinn Óskarsson var í byrjunarliði FCK sem og Sverrir Ingi Ingason í liði Midtjylland.
Eftir um klukkustundar leik var Orri tekinn af velli en stuttu áður hafði hann fengið höfuðhögg eftir baráttu við Sverri.
Sverrir steig fyrir Orra og skullu þeir tveir saman. Sverrir fékk gult spjald fyrir þetta brot en Orri hélt leik áfram í nokkrar mínútur áður en hann var tekinn af velli þar sem hann fékk klakapoka. Svo fór hann beint inn til búningsherbergja.
Midtjylland er tveimur mörkum yfir en liðið skoraði tvö mörk á níu mínútna kafla í síðari hálfleiknum. Það gerðu þeir Ola Brynhildsen og Oliver Sorensen. Leikurinn er hins vegar stopp þessa stundina og er ekki í gangi.
Svo virtist sem að það hafi liðið yfir áhorfanda þegar um nokkrar mínútur voru til leiksloka. Dómari leiksins senti alla leikmenn inn til búningsherbergja og því er leikurinn stopp eins og er.