Það má svo sannarlega segja að Tarik Ibrahimagic hafi boðið upp á töfra þegar Víkingur vann magnaðan 2-3 sigur gegn Val í Bestu deildinni í gær.
Tarik var hetja Víkinga í sigrinum en hann skoraði tvö mörk eftir að Íslandsmeistararnir höfðu lent 2-1 undir. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Víkingsliðið í titilbaráttunni en þeir halda í toppsætið í baráttunni við Blika.
Tarik var hetja Víkinga í sigrinum en hann skoraði tvö mörk eftir að Íslandsmeistararnir höfðu lent 2-1 undir. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Víkingsliðið í titilbaráttunni en þeir halda í toppsætið í baráttunni við Blika.
Tarik er afar áhugaverður leikmaður sem kom til Víkinga á miðju tímabili eftir að hafa leikið vel með Vestra. Hann gekk í raðir Vestra á síðustu leiktíð og hjálpaði þeim að komast upp í Bestu deildina.
Var barnastjarna í Danmörku
Tarik hafði verið barnastjarna í Danmörku en hann var ungur að árum kominn upp í aðallið OB. Hann spilaði ellefu leiki með aðalliðinu á táningsaldri og á sama tíma lék hann fyrir U19 landslið Dana. En svo hægðist á ferlinum. Hann fór til Næstved í 1. deildinni í Danmörku og það gekk ekkert svo vel þar.
Hann sagði í viðtali við Fótbolta.net fyrr á þessu ári að Vestri hefði hjálpað honum að finna sjálfstraustið aftur.
„Vestri er magnað félag og fólkið er magnað þar. Ég skulda þeim mikið. Þau gáfu mér tækifæri til að standa mig í Bestu deildinni á Íslandi. Ég fékk sjálfstraustið aftur. Davíð Smári hjálpaði mér mikið. Ég þroskaðist líka sem manneskja," sagði Tarik.
Þetta var skrefið sem hann þurfti, að fara í kuldann og snjóinn á Ísafirði. Þar fann hann sig upp á nýtt.
Valur og Víkingur börðust um hann
Hann hélt áfram að spila á þessu tímabili og í sumarglugganum börðust Víkingur og Valur um hann.
„Það er ekkert leyndarmál að það var annað félag inn í myndinni og fleiri félög gerðu tilboð sem voru samþykkt. Ég þurfti að hugsa um hvað ég ætti að velja. Ég tel að Víkingur spili besta fótboltann á Íslandi. Þeir eru að berjast um báða titla og um að komast í riðlakeppni í Evrópu. Að fá að spila á stærsta sviðinu er eitthvað sem ég hef metnað um að gera," sagði danski leikmaðurinn.
„Áhuginn þýðir að ég hafi gert eitthvað rétt frá því ég kom fyrir einu ári í Lengjudeildina. Það var markmiðið að komast á toppinn og ég ætla mér enn lengra. Ég er ánægður að taka þetta skref núna."
Tarik virðist vera akkúrat leikmaðurinn sem Víkingur þurfti.
„Hann var okkar draumaskotmark. Það var hart barist um hann, en sem betur fer valdi hann okkur," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, þegar hann krækti í Tarik. „Ég hef hrifist af hans leik í sumar og hans karakter líka. Þetta er strákur - miðað við hans hæfileika - sem sá ekki alveg fyrir sér að enda á Ísafirði 23 ára en Davíð (Smári, þjálfari Vestra) er virkilega naskur að finna svona hæfileikaríka leikmenn og selja þeim þá hugmynd að það besta væri að koma vestur og vinna. Hann tók það á kinnina. Hann spilaði margar stöður fyrir Vestra og var aldrei í fýlu. Ég og félagið hrifumst af því."
Púslið sem gæti ýtt Víkingum yfir línuna
Arnar taldi Tarik geta komið með mikið inn í leik Víkinga og hann hefur gert það. Hann er algjör nútímaleikmaður ef svo má segja en hann hefur mikið spilað sem bakvörður sem hefur leyst inn á miðju. Tarik gerði það í gær, var í vinstri bakverði og var mikið að leysa inn á miðsvæðið. Það virðist henta honum frábærlega.
Arnar hrósaði Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, fyrir að finna Tarik eftir sigurinn á Val í gær.
„Það er eitthvað 'eye of the tiger' í þessum strák. Þú horfir í augunum á honum og hann vill þetta. Hann fór aðeins út af brautinni í Danmörku vegna meiðsla og einhverju svoleiðis. Hrikalega vel gert hjá Davíð Smára að finna þennan dreng. Það er mikið hjarta og sál í honum. Fyrir hann að koma inn í strúktúr og negla það frá fyrsta degi er ótrúlegt," sagði Arnar.
Tarik er klárlega með gæðin og hugarfarið til að fara enn lengra en í sumar gæti hann verið púslið sem hjálpar Víkingum yfir línuna í gífurlega harðri baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn.
Athugasemdir