Stoðsendingakóngurinn, Adam Ægir Pálsson, dreymir um að fara út í atvinnumennsku en er einnig spenntur fyrir því verkefni sem er í gangi hjá Víkingum. Hann ræddi við Stefán Martein Ólafsson, fréttamanna Fótbolta.net, um framtíðina.
Adam Ægir sló stoðsendingametið í efstu deild í gær er hann lagði upp tvö mörk í 4-0 sigri Keflavíku á Fram.
Hann lagði upp 14 mörk í Bestu deildinni í sumar og var því með flestar stoðsendingar. Hann skoraði þá sjö mörk í deildinni og er alveg ljóst að lið erlendis eru farin að sýna honum áhuga.
Adam var á láni hjá Keflavík frá Víkingum í sumar en þó það sé langþráður draumur að spila erlendis þá er hann mjög spenntur fyrir því að snúa aftur í Víking.
„Já, það hefur verið einhver áhugi, en ég bara í eigu Víkings og ég veit ekki hvað gerist. Kári sendi á mig í gær sem er gott og spenntur að fara í Víking aftur. Ef það er áhugi erlendis þá er ég mjög stoltur af því og vonandi kemur eitthvað gott upp."
„Ef ég segi satt frá þá langar mig að spila erlendis. Það hefur verið draumurinn síðan ég var lítill polli. Það er klárlega draumur en það þarf að vera rétt move og staður sem ég fæ að spila á en ég bara veit það ekki."
„Víkingur er með gott 'project' í gangi og eru í Evrópukeppninni og það er spennandi líka og spenntur að sjá hvað gerist," sagði hann í lokin.
Athugasemdir