Júlía Margrét Ingadóttir hefur samið um að leika með Fram til næstu tveggja ára en hún kemur til félagsins frá Stjörnunni.
Júlía er 18 ára gömul og spilar stöðu miðjumanns. Hún lék seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá Fram þar sem hún spilaði sjö leiki í Lengjudeildinni er Fram kom sér upp í Bestu.
Fram hefur nú fengið Júlíu alfarið frá Stjörnunni og semur hún til 2026.
„Ég er hæst ánægður að Júlía sé alfarið orðin leikmaður Fram. Hún gerði mikinn gæfumun þegar hún kom á láni á miðju tímabili í sumar og spilaði stórt hlutverk í góðum árangri liðsins seinni hluta tímabilsins. Það er mikilvægt fyrir félagið að við fáum inn ungar og efnilegar stelpur sem geta látið að sér kveða strax, og fer Júlía í hóp þeirra leikmanna. Það er mikil tilhlökkun í mér að halda áfram að vinna með henni og sjá hana vaxa og dafna innan sem utan vallar,“ sagði Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram, á heimasíðu félagsins.
Athugasemdir