Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari og yfirmaður fótboltamála hjá KR, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu í dag, en hann ræddi meðal annars um landsliðsþjálfarastöðuna og hans skoðun á því hver eigi að taka við af Åge Hareide.
KSÍ er í leit að nýjum landsliðsþjálfara eftir að Åge sagði upp störfum eftir landsliðsverkefnið í nóvember.
Norðmaðurinn stýrði landsliðinu i eitt og hálft ár frá apríl 2023 og út nóvember. Hann náði engum stórkostlegum árangri en vann átta af tuttugu leikjum og kom Íslandi í úrslit umspils um sæti á Evrópumótið.
KSÍ er á fullu að vinna í því að finna eftirmann Åge en Óskar Hrafn vill fá annan erlendan þjálfara í starfið.
„Ég held ég hafi sagt það 2007 þegar við vorum í eyðimerkurgöngunni. Ég held ég hafi skrifað einn eða tvo leiðara um að við þyrftum erlendan þjálfara. Þeir sem hafa verið nefndir til sögunnar, Freyr Alexandersson og Arnar Gunnlaugsson, eru tveir mjög góðir þjálfarar og góðir kostir. Ég er á þeirri skoðun að í fullkomnum heimi myndum við finna reynslumikinn erlendan þjálfara.“
„Það hefði sennilega verið frábært að fá Åge tíu árum fyrr. Á einhverjum tímapunkti þverrir orkan og verður minni og minni, hungrið að einhverju leyti og allt þetta. Ef við getum fengið erlendan þjálfara á góðrum aldri og með mikla reynslu. Ég held að það væri best en að því sögðu væru þessir tveir þjálfarar sem ég nefndi áðan mjög góðir kostir. Ef Þorvaldur, sem það gaf það sterklega til kynna að við myndum ráða Íslending, þá væru þeir örugglega fínir.“
„Ég er bara ekki í þessari stöðu að ég hafi áhyggjur af því hver verður landsliðsþjálfari Íslands. Hef ekki eytt miklum tíma í að hugsa um það,“ sagði Óskar í útvarpsþættinum.
Óskar var spurður út í þá erlendu kosti sem koma til greina en þar var Svíinn Janne Andersson og Daninn Kasper Hjulmand nefndir. Janne stýrði sænska landsliðinu frá 2016 til 2023 á meðan Hjulmand hætti með danska landsliðið í sumar eftir að hafa stýrt liðinu í fjögur ár.
„Ætli hann (Janne Andersson) væri ekki líklegastur. Menn hafa nefnt Kasper Hjulmand en ég tel það óraunhæft. Ég held að hann líti svo á að hann geti fengið eitthvað gott starf þó hann hafi ekki gert meiriháttar góða hluti með Mainz á sínum tíma, en myndi halda að einhver týpa eins og Janne Andersson væri feikilega öflugur. Hvaða niðurstöðu sem menn komast að, hvort sem það sé Freyr, Arnar eða einhver útlendingur þá þarf hann að finna út úr því hvernig hann ætlar að koma mörgum hæfileikaríkum sóknarmönnum inn í liið á sama tíma án þess að fórna jafnvæginu í liðinu. Finna lausn og finna stöðugleika í varnarleikinn og á einhverjum tímapunkti að þora að breyta og skilja landsliðið frá gullkynslóðinni. Á einhverjum tímapunkti þurfa menn að þora því.“
„Sá sem tekur við þarf að hafa bein í nefinu og þora að taka erfiðar ákvarðanir. Ég held að það sé mikilvægast fyrir hann því allt eru þetta góðir þjálfarar og kunna taktíkina upp á tíu, sem elska þroskaðar, heilsteyptar og fagmannalegar frammistöður sem kunna að ná í úrslit sem ekki er öllum gefið.“
Gerðu samning fyrir fimm árum
Óskar vildi ekki blanda sjálfum sér í umræðuna um starfið en hann telur sig alls ekki vera efni í stöðuna.
Fyrir fimm árum, þegar Óskar tók við Breiðabliki og Orri fór út í atvinnumennsku til FCK, gerðu þeir samning um að sambandi þeirra sem leikmaður og þjálfari væri formlega lokið.
„Ekki nokkur einasti möguleiki. Ég held að ég tikki ekki í eitt einasta box nema það að ég er með UEFA Pro og er Íslendingur. Ég held að mátinn sem ég fótbolta á og hvernig ég nálgast þetta sé alls ekki í landsliðsumhverfinu. Fyrir utan að ég geri ráð fyrir því og vona að sonur minn eigi nokkur ár eftir sem íslenskur landsliðsmaður. Við gerðum samning 2019 þegar hann yfirgaf Gróttu, þegar við gerðum það saman, að okkar samstarfi sem leikmaður og þjálfari hér með formlega lokið og héðan í frá myndi ég einbeita mér að föðurhlutverkinu þegar það kæmi að honum.“
„Þetta var ekki erfitt en það kemur alltaf að þeim tímapunkti. Samskipti þjálfara og leikmanns fara ekki alltaf saman við það að vera faðir og sonur. Akkúrat þarna var rétti tímapunkturinn til að stíga út úr þessu þjálfarahlutverki í hans lífi og verða faðir og stuðningsaðili. Þannig neinei ég væri held ég ekki góður kostur fyrir íslenska landsliðið.“
En hvað með önnur landslið, eins og Liechtenstein eða San Marinó?
„Það gæti verið en ég sé það ekki gerast. Held að það skipti Liechtenstein og San Marinó miklu máli að hámarka stigafjölda í þeim leikjum sem þeir spila,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir