Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 31. mars 2021 23:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ómögulegt að útiloka föðurtilfinningar - „Ótrúlegt hvað Sveinn er sterkur"
Icelandair
Sveinn Aron í fyrsta A-landsleiknum.
Sveinn Aron í fyrsta A-landsleiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður fylgist með Sveini í upphitun fyrir leik.
Eiður fylgist með Sveini í upphitun fyrir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Aron Guðjohnsen kom nokkuð óvænt inn í byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Liechtenstein í undankeppni HM í kvöld.

Sveinn Aron var á dögunum kallaður upp úr U21 landsliðinu og hann kom bara beint inn í byrjunarliðið í kvöld. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik og fylgdi þar með í fótspor afa síns, Arnórs Guðjohnsen, og föður síns, Eiðs Smára, sem voru báðir miklar hetjur með landsliðinu.

„Jón Daði var búinn að skila tveimur erfiðum vöktum og standa sig mjög vel. Það var hluti af þessari álagsstýringu sem við höfum talað um. Það voru ákveðnir leikmenn sem voru í banni eða meiðslum, þá var valið á milli Hólmberts og Sveins," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Liechtenstein sem endaði 4-1 fyrir Ísland.

„Það sem við þurftum á að halda í leiknum í dag, það hentaði Sveini aðeins betur. Það er ekkert annað þar á bak við. Það er einfaldlega leikaðferðin í dag að við töldum betra að vera með Svein Aron út frá hans styrkleikum. Hólmbert kom inn og stóð sig mjög vel þegar Sveinn Aron var búinn með sína vakt," sagði Arnar en hann var nánar spurður út í það hvaða styrkleika en hann ætti þar við.

„Ef við horfum á þessa tvo leikmenn og berum saman þá eru þeir báðir stórir og sterkir sóknarmenn. Sveinn er sterkari í djúpu hlaupunum að mínu mati. Hólmbert er betri í að 'posta upp', fá boltann og leggja hann til hliðar. Það er eitt dæmi um þá eiginleika sem við leggjum á vogarskálarnar þegar við tökum svona ákvarðanir."

„Þá erum við líka að kíkja á andstæðinginn, hvaða hlaup viljum við fá? Færin sem við vorum að skapa okkur í dag; við vorum að halda boltanum lengi og gátum svo komið með djúpu sendingarnar. Það voru þessi hlaup sem við vorum að biðja um og reyna að fá í dag."

Eiður Smári, faðir Sveins, er núverandi aðstoðarþjálfari landsliðsins. Fyrir hvern leik koma þjálfararnir - Arnar, Eiður og Lars - allir með sitt byrjunarlið og svo velja þeir. Eiður Smári fékk ekki að velja senter í þessum leik. Pressan er mikil á Sveini þar sem faðir hans og afi eru tveir af bestu fótboltamönnum í sögu Íslands.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta sé mjög erfið staða, sérstaklega fyrir Svein Aron," sagði Arnar og bætti við að það væri eðlilegt skref fyrir Svein að koma upp í A-landsliðið núna þar sem hann hefði verið markahæstur í undankeppninni með U21 landsliðinu og skorað á lokamótinu, og staðið sig vel þar.

„Fólki getur fundist það asnalegt en hvað sem er, en ég Lars og Eiður tókum þá ákvörðun að Eiður myndi ekki velja senter í þennan leik. Sem þjálfari þarftu mikið að geta útilokað tilfinningar en það er ómögulegt að útiloka föðurtilfinningar. Ég og Lars völdum sóknarmanninn, og það var rétt ákvörðun."

„Það er pressa á drengnum en það er ótrúlegt hvað hann er sterkur og hvernig hann höndlar þetta. Hann er vel gerður, það hlýtur að koma úr móðurætt þá," sagði Arnar léttur.
Athugasemdir
banner
banner