banner
   lau 31. október 2020 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Þetta snýst ekki um að skína eða fljúga
Mynd: Getty Images
Jürgen Klopp var stoltur eftir 2-1 sigur Liverpool gegn West Ham í enska boltanum í dag. Englandsmeistarar Liverpool eru á toppi deildarinnar með 16 stig eftir 7 umferðir.

„Heimurinn er í erfiðri stöðu og við erum þakklátir fyrir að fá að spila fótbolta. Við verðum að gera allt til að vinna og við gerðum það í dag. Þetta snýst ekki um að skína eða fljúga eða eitthvað, þetta snýst um að leggja allt í sölurnar og berjast í 95 mínútur," sagði Klopp.

„Þetta snýst ekki um að hafa grunnatriðin á hreinu því andstæðingar okkar í dag eru of góðir fyrir það, maður verður að gera eitthvað aukalega og við gerðum það. Við spiluðum mjög vel, við fengum ekki 500 færi eða eitthvað en samt nóg."

Klopp var sérstaklega ánægður með framlag nýliðans Nathaniel Phillips og Diogo Jota sem var keyptur fyrir tímabilið. Hinn lítt reyndi Phillips var valinn maður leiksins af Sky Sports.

„Hann (Phillips) er frábær náungi, hann er mjög snjall og gáfaður. Hann er enginn Messi en hverjum er ekki sama? Hann er skrímsli í loftinu! Hann var ótrúlegur í dag.

„Það er svolítið klikkuð saga. Fyrir þremur árum var hann á leið í háskóla í Bandaríkjunum. Svo vildu tólf lið úr Championship deildinni fá hann og ég var viss um að hann myndi róa á önnur mið en félagaskiptin gengu ekki upp af einhverjum ástæðum - sem betur fer! Hann var fullkominn í dag og hjálpaði liðinu gríðarlega mikið.

„Við þurftum að berjast til að ná í Jota. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur, hann er snöggur, sterkur, teknískur og getur skotið með báðum fótum. Hann er mun betri en ég bjóst við og þá er mikið sagt."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner