Spænski reynsluboltinn Sergio Ramos er mögulega búinn að finna sér nýtt félag en Relevo segir hann vera í viðræðum við argentínska stórliðið Boca Juniors.
Þessi 38 ára gamli miðvörður hefur verið án félags síðan hann fór frá Sevilla í sumar.
Á síðustu vikum hefur hann verið orðaður við ítalska félagið Juventus og þá sérstaklega eftir að brasilíski leikmaðurinn Bremer sleit krossband.
Ramos, sem er enn með getuna til að spila á hæsta stigi, ætlar að horfa út fyrir Evrópu, en Relevo segir að hann sé nú í samningaviðræðum við Boca Juniors í Argentínu.
Spænski varnarmaðurinn hefur átt í viðræðum við Juan Roman Riquelme, forseta Boca, síðustu vikur og þá einnig rætt við Fernando Gago, þjálfara liðsins, sem lék einmitt með Ramos hjá Real Madrid frá 2007 til 2012.
Boca er tilbúið að bjóða Ramos 5 milljónir evra í árslaun sem er töliuvert lægri upphæð en hann þénaði hjá Sevilla á síðustu leiktíð.
Talið er að peningar spili ekki stóra rullu í ákvörðun Ramos, en ást hans á Diego Maradona er ein af ástæðum þess að hann vill búa í Argentínu og spila með Boca.
Argentínska deildin tekur sér hlé í desember og sér Spánverjinn fyrir sér að ganga þá í raðir Boca og vera klár í næsta tímabil sem hefst í febrúar.
Athugasemdir