Í byrjun tímabils voru fimm leikmenn í hópi Breiðabliks sem eru uppaldir í Aftureldingu. Það voru þeir Anton Ari Einarsson, Arnór Gauti Jónsson, Eyþór Aron Wöhler, Ísak Snær Þorvaldsson og Jason Daði Svanþórsson.
Eyþór var seldur til KR í vor og Jason Daði hélt til Grimsby á Englandi. Hinir þrír voru allir í byrjunarliðinu í úrslitaleiknum gegn Víkingi á sunnudag. Fótbolti.net ræddi við Anton Ara í vikunni og var hann spurður út í Mosó stemninguna hjá Breiðabliki.
Eyþór var seldur til KR í vor og Jason Daði hélt til Grimsby á Englandi. Hinir þrír voru allir í byrjunarliðinu í úrslitaleiknum gegn Víkingi á sunnudag. Fótbolti.net ræddi við Anton Ara í vikunni og var hann spurður út í Mosó stemninguna hjá Breiðabliki.
„Það hefur verið Mosó tenging við Breiðablik, Róbert Orri (Þorkelsson) er fenginn úr Mosó og fer svo út. Nokkrir strákar úr Blikum hafa líka farið á láni til Aftureldingar. Það hefur verið mikil Mosó stemning í klefanum hjá Breiðabliki sem er bara mjög skemmtilegt," segir Anton. Hann var svo spurður út í þá Arnór Gauta og Ísak.
Sýndi karakter, hélt áfram og stimplaði sig svo inn
Arnór Gauti stimplaði sig inn í lið Breiðabliks þegar leið á tímabilið og sleppti svo ekki takinu af byrjunarliðssætinu. Hann kom eins og klettur inn á miðsvæðið og var frábær í úrslitaleiknum gegn Víkingi.
„Það var algjör snilld að sjá hann vinna sig inn í liðið. Hann var inn og út til að byrja með, var að leysa bakvörðinn líka. Svo náði hann bara að koma sér vel fyrir á miðjunni og stóð sig ótrúlega vel. Hann er þeim eiginleikum gæddum að vera þvílíkur karakter sem er algjör snilld að hafa. Það er pottþétt alveg mjög óþolandi að spila á móti honum, ég geri ráð fyrir að það sé jafnmikil snilld að vera með honum í liði og það er erfitt að mæta honum. Hann á þvílíkt hrós skilið hvernig hann tæklaði þetta tímabil. Ég gæti vel trúað að það hafi verið einhverjar pælingar með fara á lán í byrjun tímabils af því að hann var ekki að fá þær mínútur sem hann vildi, en það sýnir hans karakter að halda áfram og stimpla sig svona rækilega inn."
„Það er þvílíkt til fyrirmyndar hversu mikill fagmaður hann er, hversu 'all-in' hann er. Hann er alltaf með hausinn fulleinbeittan á það sem skiptir mestu máli."
„Ísak græjar þetta bara"
Ísak var maður leiksins í úrslitaleiknum gegn Víkingi, skoraði tvö mörk og sýndi hversu megnugur hann er. Ísak var lengi að koma sér í gang en þegar öll hjól fóru að snúa réði enginn við hann.
„Hann er ekkert eðlilega góður. Við grínuðumst einhvern tímann með þetta á meðan leik stóð. Viktor Margeirs vildi fá boltann frá mér á einhvern ákveðinn leikmann í eitt skiptið, þá dúndraði ég boltanum fram, boltinn leit út fyrir að vera ekki á leiðinni á neinn. Viktor byrjaði að skammast í mér en síðan kemur Ísak á ferðinni og trukkar einhvern gæja og sendi langan boltann inn fyrir með bringunni. Viktor fór úr því að skammast í mér í það að hlæja og sagði: 'Eða sparkaðu bara eitthvert og Ísak græjar þetta bara'. Það lýsir vel hversu óviðráðanlegur Ísak getur verið. Ég geri ráð fyrir að það sé algjör martröð að eiga við hann."
Ísak ber það með sér að vera nokkuð rólegur yfir öllu og í öllum aðstæðum, er það rétt metið?
„Hann er mjög oft rólegur en getur alveg farið upp og skemmt sér. Inn á vellinum talar hann í verkum."
Það er þá kannski betri lýsing að segja að það sést aldrei á honum að hann sé stressaður.
„Hann veit alveg að hann er að fara græja hlutina, hefur ekki áhyggjur í eina sekúndu að eitthvað sé að fara úrskeiðis. Sjálfstraustið er þannig að hann veit að þetta verður ekkert mál," sagði Anton. Anton og Ísak voru einnig hluti af Blikaliðinu 2022 og voru því að vinna sinn annan meistaratitill saman.
Athugasemdir