Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   fös 25. febrúar 2011 08:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Leikaraskapur er krabbamein knattspyrnunnar
Kristján Jónsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd tengist efni greinarinnar ekki beint.
Mynd tengist efni greinarinnar ekki beint.
Mynd: Víkurfréttir - Þorgils Jónsson
Mynd: Getty Images
Birtist í íþróttablaði Morgunblaðsins 3. ágúst 2010. Birt með leyfi höfundar.

Þegar undirritaður ræddi við knattspyrnuáhugafólk í kjölfarið af HM í knattspyrnu, og á meðan á keppninni stóð, þá var augljóst að margir voru komnir með upp í kok af leikaraskap knattspyrnumanna. Mörg undanfarin ár hefur leikaraskapur verið plága í knattspyrnunni en svo virðist sem þessi meinsemd fari bara versnandi. Það er átakanlegt að sjá fullfríska karlmenn engjast um í grasinu og það er engu líkara en sársaukaþröskuldurinn sé mun lægri hjá knattspyrnumönnum en öðrum íþróttamönnum.

Rétt er að taka það fram að leikaraskapur virðist vera mun minna vandamál hjá kvenfólkinu þó það sé sjálfsagt til staðar. Nú er svo komið að leikaraskapur virðist vera orðinn krabbamein knattspyrnunnar og gæti hæglega dregið úr vinsældum íþróttarinnar ef fram heldur sem horfir. Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að leikmenn virðast vera farnir að þróa þennan óheiðarleika kerfisbundið. Hvernig og hvenær eiga menn að láta sig detta þegar þeir finna fyrir snertingu markvarðarins og þar fram eftir götunum.

Leiðir til úrbóta
Sparkspekingar og áhugamenn um íþróttina hafa sett fram ýmsar skoðanir um hvað beri að aðhafast til þess að sporna við þessari meinsemd. Hefur til dæmis verið talað um að gefa rauð spjöld í þessu sambandi eða dæma menn í leikbann út frá sjónvarpsupptökum ef dómarinn gengur í gildruna. Ég ætla ekki að taka sérstaka afstöðu gagnvart þeim hugmyndum sem fram hafa komið en ætla að leggja til leiðir til úrbóta í þessum pistli í stað þess að kvarta bara og kveina.

Síðasta vetur kynntist undirritaður íshokkííþróttinni af einhverju viti. Þar glíma menn ekki við þetta vandamál nema í mjög litlum mæli. Ef menn verða uppvísir að því að gera sér upp meiðsli, eða reyna að fiska eitthvað á andstæðinginn, þá sjá leikmenn oft um það sjálfir að viðkomandi eigi ekki sjö dagana sæla. Er það í sjálfu sér ágætis forvörn enda er aumingaskapur ekki dyggð í þessari íþrótt eins og manni virðist stundum vera í nútímaknattspyrnu.

Út af með hræið!
Þessar uppeldisaðferðir eru ágætar í sjálfu sér en það var annað sem vakti athygli mína á ísnum. Þar koma menn sér einfaldlega út af sjálfir ef þeir meiðast. Þetta er náttúrlega alveg ilmandi fín leið til þess að draga úr því að menn tefji leiktímann með því að liggja á knattspyrnuvellinum. Áhorfendur greiða stórfé fyrir að horfa á knattspyrnuleiki, hvort sem er í formi aðgangseyris eða sjónvarpsáskriftar. Af hverju á þetta fólk að þurfa að bíða á meðan leikurinn er stöðvaður til þess að hlúa að mönnum út af stóru sem smáu?

Ef menn eru meiddir þá eiga þeir einfaldlega að koma sér sjálfir út fyrir völlinn, gangandi, haltrandi eða skríðandi og geta þá fengið aðhlynningu. Undantekningin mætti þá vera að ef grunur leikur á höfuðmeiðslum þá stöðvi dómarinn leikinn. Þetta getur komið í veg fyrir að leikmenn liggi eftir á vellinum og geri sér upp meiðsli. Þeir geta ekki tafið leikinn ef hann er ekki stöðvaður. Sjálfsagt þyrfti að útfæra einhverjar breytingar á núverandi reglum, eins og hvenær leikmenn mega fara út af vellinum, til þess að gera þetta mögulegt. Það ætti nú ekki að vera stórmál að mínu mati. Eins og fólk varð vitni að á HM þá geta knattspyrnuleikir alveg verið nógu langdregnir án þess að sífellt sé verið að stöðva leikinn út af væli í vel þjálfuðum íþróttamönnum.

Kristján Jónsson
Höfundur er íþróttablaðamaður á Morgunblaðinu
banner
banner
banner