Það að vera fréttamaður er starf með heilmikla ábyrgð. Oft er það rætt þegar farið er yfir starf stríðsfréttamanna, en við megum aldrei gleyma því að það á líka við um íþróttafréttamenn.
Ótal marga stráka og stelpur dreymir um að fá að vera íþróttafréttamenn. Það að vera í svo mikilli nálægð við fídonskraftinn sem ríkir inni á leikvellinum og hafa aðgengi að sigurvegurum og töpurum strax eftir leik.
En eins og í öllum starfsgreinum eru það mishæfileikaríkir einstaklingar sem veljast í starf íþróttafréttamannsins.
Hinn "eini sanni" íþróttafréttamaður er að mínu mati sá sem "fangar kjarnann" í lýsingum sínum og viðtölum. Les í leikinn og útskýrir vel hvaða upplegg og leikaðferðir við sjáum og tilgreinir sérstaklega þegar honum finnst áherslur leiksins vera að færast til. Hefur kynnt sér þau lið sem eru inná hverju sinni og er undirbúinn undir breytingar þeirra á leikskipulagi og innáskiptingar. Lýsir því sem er að gerast og nýtir sér það að fá öflugri upplýsingar og aðgang að viðburðinum en við hin.
Þegar kemur að viðtölum á sá hinn sami að fá leikmenn og þjálfara til að ræða leikinn sjálfan, í heild. Ástæðu taps, sigurs eða jafnteflis, reyna að fá viðmælandann til að ræða sinn eigin þátt í frammistöðunni og veita okkur innsýn í það sem er að gerast í liðinu. Ekki bara á því mómenti sem viðtalið á sér stað, heldur leyfa manni að ímynda sér hvernig stemmingin verður í klefanum eftir leik og í framtíðinni!
Lýsingar frá íþróttakappleikjum sem fara út í sagnfræðifyrirlestur um fyrri lið og frammistöður þeirra sem leika leikinn, eða endalausar upprifjanir á atvikum á liðnum mínútum í leiknum eða fyrri leikjum þeirra liða sem eiga í hlut vekja með mér óstjórnlegan pirring og fær mig til að vilja slökkva á hljóðinu eða jafnvel svissa á aðra stöð. Hvað þá þegar um er að ræða útvarpslýsingu!
Það er nútíminn, mínútan og sekúndan, sem er í gangi sem á að skila sér í lýsingunni til þeirra sem eru svo óheppnir að vera ekki á vellinum.
Nú förum við að upplifa beinar útsendingar úr íslenska boltanum bráðum og þá verða í gangi misgóðir leikir, leikmenn, dómarar og lýsendur. Svoleiðis er það auðvitað og er bara partur af leiknum, en vonandi verður það svo að við fáum yfirvegaðar lýsingar á atvikum í stað upphrópana. Hvað þá í viðtölum strax eftir leik inni á vellinum þar sem adrenalínið er ennþá flæðandi og menn ekki í jafnvægi.
Slík viðtöl geta auðvitað verið skemmtileg en þegar þau eru þau einu sem við fáum að heyra verða þau oft á tíðum þreytandi og sýna okkur oft verstu hliðar leikmanna og þjálfara. Mikið þætti mér gaman ef að íslensk félög og fjölmiðlar myndu finna sér samkomulag um blaðamannafundi, t.d. 20 mínútum að leik loknum þar sem þjálfari og einn leikmaður úr hvoru liði sætu fyrir svörum. Væru þá búnir að "klára klefann" og mestu geðshræringuna, tilbúin að veita áðurnefnda innsýn.
Annað dæmi sem mér er stundum hugleikið er hvernig fjölmiðlarnir stundum virðast sameinaðir í að skapa hetjur og skúrka.
Það er þegar einhver ákveðinn leikmaður fellur t.d. að ímynd glæsileika eða krafts, oft í kjölfar stórrar kaupupphæðar eða YouTube-umræðu. Þeir einstaklingar sem fara á "jákvæðum nótum" inn í ákveðin félög fá oft að sleppa við að takast á við sín mistök á meðan aðrir sem fara á "hlutlausum eða neikvæðum nótum" liggja oft vel við höggi og fá að sitja í öllum sínum súpum.
Mig langar að nefna dæmi um þetta frá nýliðnum leikjum í enska boltanum. Á sunnudaginn gerði hafsentinn Koscielny mistök í leik með sínu liði eftir að hafa verið að leika vel í 89 mínútur. Eftir þann leik (sem vissulega tapaðist á hans mistökum) hefur sá mátt þola stórar spurningar um hans leik.
Á þriðjudagskvöldið var svo annar stórleikur í gangi og þar lék hafsent sem nýlega var keyptur á stóra upphæð til Chelsea. Sá leikmaður er brasilískur landsliðsmaður sem ég hef fylgst töluvert með sem aðdáandi portúgalsks fótbolta. Í Portúgal kom mönnum á óvart að hann væri seldur á svo stóran pening og til Englands, því hann hefur ítrekað lent í vandræðum að eiga við líkamlega sterka framherja og þá sem eru öskufljótir. Nokkuð sem hann á eftir að finna í ensku deildinni held ég. Nýlega braut hann klaufalega og gaf víti í uppbótartíma (sem markmaðurinn vissulega varði) og í þessum leik er öllum ljóst að á mörgum öðrum dögum hefði hann átt að fá rautt spjald. Ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Stjórinn ákvað loks að taka hann útaf þegar 10 mínútur voru eftir í mikilvægasta leik liðsins þann vetur þar sem hann átti í erfiðleikum varnarlega gegn framherjum United.
En hann skoraði vissulega og getur spilað boltanum út úr vörn og hann var valinn maður leiksins í flestum fjölmiðlum.
Í báðum tilvikum fannst mér gengið of langt, í neikvæðni gagnvart Koscielny og í jákvæðni gagnvart David Luiz - en þar held ég að spili inní sú ímynd sem búin hefur verið til um þessa tvo leikmenn, sem er ekki endilega sanngjörn mynd af getu þeirra.
Þá ímynd búa fjölmiðlarnir til, enda ábyrgð þeirra mikil.