Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   mið 23. mars 2011 14:05
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Eru leikmenn stikkfrí?
Stefán Bogi Sveinsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Stefán Bogi Sveinsson.
Stefán Bogi Sveinsson.
Mynd: Úr einkasafni
Hefði verið hægt að koma í veg fyrir rauðu spjöldin sjö sem fóru á loft í leik Vals og Fram á föstudagskvöldið?. Já, auðveldlega. Ef leikmenn hefðu haft stjórn og sér og forráðamenn þeirra á leikmönnunum. Einhverra hluta vegna hefur þessi augljósi sannleikur ekki farið sérlega hátt í umfjöllun um leikinn. Athyglin hefur, eins og stundum áður, fyrst og fremst beinst að dómaranum. Er það virkilega það eina sem við ættum að vera að ræða í kjölfarið á þessum atburðum?

Þeir sem voru viðstaddir leikinn í Egilshöllinni munu hafa heyrt og séð hvers vegna sex þeirra fóru á loft. Fimm þeirra voru greinileg í sjónvarpinu. Halldór Hermann Jónsson: Maður hleypur ekki uppi næsta mótherja og sparkar hann niður. Jóhann Ingi Jóhannsson: Þjálfarar fara ekki inn á völlinn og negla boltanum í burtu. Freyr Alexandersson: Þú þarft ekki og mátt ekki segja allt sem þú hugsar.. Ívar Björnsson og Halldór Kristinn Halldórsson: Þið sláist ekki inni á vellinum. Rúnar Sigurjónsson: Þú tæklar ekki menn í mjöðmina af fullum krafti. Og þið sem slógust utan vallar en virðist af einhverjum ástæðum ekki mega nefna á nafn og því veit ég ekki hverjir þið voruð: Hvorki þið né félagar ykkar megið eða eigið að taka þau vandamál með ykkur á völlinn og vandamálin af vellinum takið þið ekki með ykkur niður í bæ.

Það er ekki flókið að fletta upp í knattspyrnulögunum á ksi.is og finna ástæður fyrir brottvísunum. Þar má einnig finna nánari túlkanir og skýringamyndir.

Þegar dómari hefur lyft spjaldi er hann ekki bara að refsa hinum brotlega, hann er líka að vara aðra leikmenn við. Hann sýnir hvaða hegðun verður ekki liðin og hver viðurlög hennar eru. Við ætlumst til þess að dómarar sjái til þess að reglum leiksins sé fylgt. Hvers lags fordæmi hefði það gefið ef dómari leiksins hefði leyft leikmönnum og þjálfurum að komast upp með þá hegðun sem að ofan er lýst? Hafa menn ekki eytt hálfu ári í að velta fyrir sér hví Howard Webb rak ekki Nigel de Jong út af þegar Xabi Alonso hljóp á takkana hjá honum?

Sennilega væri réttast að KSÍ tæki bæði liðin fyrir og sektaði þau rækilega fyrir að hafa ekki hemil á liðsmönnum sínum og koma óorði á íþróttina. Ekki hafa þau, starfsmenn þeirra eða leikmenn sýnt mikla iðrun að eigin frumkvæði – nema kannski Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, sem viðurkenndi í viðtali eftir leikinn að fleiri leikmenn hefðu verið heppnir að fjúka ekki út af. Viðbrögð starfsbróður hans hjá Val, Kristjáns Guðmundssonar, benda til þess að hann hafi fallið í þá gamalkunnu gryfju að sjá flísina í auga náungans, en ekki bjálkann í eigin auga. Að halda því fram að einungis liðsmenn andstæðinganna hafi verðskuldað rauð spjöld gerir þennan annars ágæta þjálfara bara kjánalegan.

Lætin afhjúpa fleira en bara agaleysi leikmanna og þjálfara. Þau afhjúpa vopnabúr þjálfara, leikmanna og stuðningsmanna liðanna. Þau afhjúpa varnarleysi dómaranna sjálfra og að úrræði og verkfæri sem KSÍ hefur eru jafn gagnslaus og þau eru úrelt.
Útlit er fyrir að í sumar verði töluvert af lítt óreyndum dómurum í efstu deildunum í fótbolta. Á meðan verða tvær sjónvarpsstöðvar með klukkutíma þætti tvisvar í viku sem þarf að fylla af efni. Við bætast fréttatímar þeirra, myndskeið á ýmsum vefmiðlum, viðtöl og álit blaðamanna (sem kunna ekki allir reglurnar heldur) í daglegum útvarpsþáttum og innslögum, á hálftómum pappírssíðum og vefsíðum sem hafa helst það markmið að fá sem flesta smelli. Við bætast síðan þúsundir stuðningsmanna á Facebook, Twitter, bloggum, kaffistofum og öllum hinum stöðunum. Þeir kunna enn síður reglurnar en vita sannarlega með hverjum þeir standa og styðja. Sitt lið, ekki dómarann.

Tækin sem KSÍ hefur eru sektir og leikbönn (leikmenn, þjálfarar) og slagorðið „Virðing“ sem sést í stöku auglýsingu. En þú fellir ekki fíl með vatnsbyssu. Þegar menn hljóta leikbannið setja þeir upp sakleysissvip og spyrja: „Má ekki lengur gagnrýna dómarana? Eru þeir heilagir? Já – en þessi sagði alveg jafn ljótt, jafnvel ljótara“ En að skammast sín? Ekki til!

Það fyrsta sem almannatenglar kenna manni er að svara þegar fréttamennirnir hringja. Þú svarar strax og þú segir satt. Þannig kemurðu þinni hlið og oft réttu upplýsingunum á framfæri.

Dómurum er hins vegar bannað að tjá sig. Þeir mega ekki verja sig í fjölmiðlum, ekki á Facebook, ekki á Twitter. Því verður KSÍ að axla sjálft ábyrgðina á að koma réttum upplýsingum á framfæri og standa með starfsmönnum leiksins.

Það á KSÍ bæði að gera til að verja dómaranna en ekki síður til að uppfylla fræðsluskylduna, að kenna áhorfendum íþróttina. Það mætti vel hugsa sér að KSÍ hefði á sínum snærum fyrrum dómara sem útskýrði reglurnar í fjölmiðlum, til dæmis í sjónvarpsþáttunum. Eða að þáttastjórnendurnir sæju sóma sinn í að hafa slíkan mann með sér þegar þeir ætla að kryfja dóma. Það er líka rétt að benda á að mörg fyrirtæki og fleiri fylgjast markvisst með hvað um þau er sagt á ýmsum samskiptavefjum og hafa fyrir því að snúa þeirri umræðu. Eldri dómarar og aðrir þeir sem bera virðingu fyrir íþróttinni og reglunum verða að finna hjá sér þörfina, stíga fram og svara því bulli og dónaskap sem fram fer á samskiptamiðlunum.

Og það er sjálfsagt að birta þau orð sem leikmenn viðhafa um dómara þegar þeir eru reknir út af. Sjálfsagt myndir einhverjum bregða við og ef til vill myndu leikmennirnir hugsa sig um tvisvar.

Það er ekki nóg að segja dómurum sem hafa tekið erfiðar, stórar og hárréttar ákvarðanir: „Þetta var rétt hjá þér. Við stöndum með þér. Góður strákur.“ Það verður að ítreka traustið með að setja hann áfram á stórleiki. Það verður að verja hann út á við til að hann standi ekki einn framan í heiminum. Klappið á bakið skiptir litlu ef menn geta ekki um frjálst höfuð strokið utan heimilis síns. Í dag eru nýliðarnir opinberlega aflífaðir og hinir eldri fá á endanum nóg.

Tveir af reynslumestu dómurum landsins eru nýverið hættir. Til að horfa á björtu hliðarnar má nefna að efnilegir dómarar fá þess vegna alvöru tækifæri. En þeir munu gera mistök. Eðlilega. Þeir þurfa að gera þau til að læra af þeim.

Í ævisögu sinni segir Pierluigi Collina frá veruleika dómarans. Hann stendur einn. Það hleypur enginn til hans og fagnar með honum góðum dómi. Áhorfendur eru ekki til að hvetja hann áfram. Það eina sem dómarinn hefur er samstaða meðal dómara og stuðningur knattspyrnusambandsins. Nýjustu fréttir af dómaramálum benda til þess að íslenskir dómarar búi ekki einu sinni við það síðast nefnda. Þetta er alvarlegt mál sem verður að laga.

Taki KSÍ ekki strax í taumana fer illa í sumar. Mjög, mjög, illa.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og knattspyrnuáhugamaður
banner
banner
banner