Fyrir mér er fyrsti sumardagur á sunnudaginn. Sumarið byrjar alltaf þegar Íslandsmótið í fótbolta fer af stað. Sumarið í ár byrjar því fyrr sama hvað menn tauta og raula og er lengra en venjulega. Jákvætt.
Það er kominn tími á að kveðja knattspyrnuhallir landsins í nokkra mánuði, þessar hallir sem hafa breytt miklu í íslenska boltanum. Ég ætla að kveðja þær í bili með þessum pistli þar sem yfirbyggðir fótboltavellir voru mér ofarlega í huga fyrir nákvæmlega mánuði síðan.
Hjá mínu félagi, sem staðsett er í Breiðholtinu, féllu niður óhemju margar æfingar yngri flokka í mars og margir flokkar gátu ekki æft svo teljandi sé. Ég tel að svo hafi verið hjá mun fleiri félögum. Það varð skýrt fyrir mér að Reykjavík þarf nauðsynlega að fá aðra yfirbyggða æfingaaðstöðu yfir vetrartímann. Egilshöllin, eina yfirbyggða knattspyrnuhús höfuðborgarinnar sem tekið var í notkun 2002, dugar ekki.
Í þessum pistli ætla ég að leggja til hliðar efnahagsástandið í landinu og einnig umræðu um staði út á landi þar sem ekki er hægt að æfa inni. Það sem ég einblíni á er að miðað við fjölda félaga og iðkenda í Reykjavík þá er ein höll í borginni ekki nóg.
Tímarnir sem flest Reykjavíkurfélögin fá inni eru varla upp í nös á ketti og er höfuðborgin búin að dragast langt á eftir nágrannasveitafélögum sínum í þessum málum. Í gær þegar illa viðraði færðu Íslandsmeistararnir úr Kópavoginum, Breiðablik, bara æfingu sína inn í Kórinn. Möguleiki sem er ekki til staðar fyrir lið eins og t.d. KR í sömu aðstöðu.
Bitnar mikið á yngri flokkum
Talandi um KR. Ég aflaði mér einmitt upplýsinga um þá tíma sem Knattspyrnufélag Reykjavíkur fékk í Egilshöllinni í vetur. Félagið fékk 3x90 mínútur í höllinni í viku frá október til apríl; sunnudaga kl.13:30, mánudaga klukkan 18:30 og fimmtudaga kl. 20:20. Fimmtudagstíminn hvarf í janúar þegar Reykjavíkurmótið hófst og einnig missti félagið flesta sunnudaga vegna leikja í höllinni. Ekki standa þá margir tímar eftir.
Það breytist milli ára hvenær á sólarhringnum félög fá æfingatíma. Í fyrra átti KR til dæmis æfingatíma klukkan 22 á mánudögum og 16 á sunnudögum. Ekki eru það kristilegir tímar og eru ekki boðlegir fjölskyldumönnum og hvað þá börnum í yngri flokkum! Það eru nefnilega yngri flokkarnir sem þetta aðstöðuleysi bitnar hvað mest á.
Fyrir félög eins og Val, Fram, Þrótt og KR þá er töluverður spotti að koma sér í Egilshöllina. Það sleppur fyrir meistara- og 2. flokk þar sem leikmenn eru með bílpróf en er ansi erfið staða fyrir yngri flokka.
Það er víst gott að búa í Kópavogi enda er bæjarfélagið með tvær hallir í fullri keppnisstærð. HK og Breiðablik hafa þar ógrynni af tímum inni fyrir alla flokka, félögin eru með geymslupláss fyrir bolta og keilur og tímapressan allt önnur. Þau sveitarfélög sem búa við þetta ná forskoti.
Borgin er með eitt hús fyrir 118 þúsund íbúa meðan Kópavogur er með tvö fyrir 30 þúsund. Akureyri, Keflavík, Fjarðabyggð og Akranes eru öll með hús. Vestmannaeyjar, Grindavík og FH hafa yfirbyggð knatthús og loftbóluhúsið er á leið í Hveragerði.
Ég kannaði aðeins málið hjá KSÍ og fékk þær upplýsingar að það sé ekki í deiglunni að henda upp öðru yfirbyggðu knatthúsi í Reykjavík.
Höfuðborgin heldur því áfram að dragast aftur úr.