Antony vill ekki yfirgefa Man Utd - Bakvörður Sevilla á blaði Man Utd - Newcastle ætlar að halda Trippier
banner
   lau 07. maí 2011 09:30
Magnús Már Einarsson
Guðjón Þórðarson: World Class verið félagsheimilið okkar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Ég lít á þetta sem viðurkenningu á okkar störfum að okkur sé ekki spáð neðar. Ég held að það hljóti að vera hól fyrir nýliða að vera spáð öruggu sæti,“ segir Guðjón Þórðarson þjálfari BÍ/Bolungarvík um spá fyrirliða og þjálfara í fyrstu deildinni en liðinu er spáð áttund sætinu í sumar.

,,Við ætlum að reyna að vinna eins marga leiki og hægt er og tapa sem fæstum. Ég ætla að fara í hvern einasta leik til að reyna að ná einhverju út úr honum. Mér er alveg sama hver andstæðingurinn er, það skiptir mig engu máli. Það eru þrjú stig í boði í hverjum leik og ég ætla að reyna að ná einhverju út úr öllum leikjunum. Deildin verður mjög jöfn og sterk og það eru mörg góð lið í þessari deild þannig að ég held að mótið verði mjög jafnt. Þetta verður mikil barátta þar til yfir lýkur."

Talsverðar breytingar hafa orðið á liði BÍ/Bolungarvíkur síðan Guðjón tók við liðinu síðastliðið haust.

,,Það hafa verið ýmsar breytingar og við erum ennþá að púsla, við erum ekki búnir að týna inn síðustu púslin ennþá . Það hefur gengið erfiðlega að fá menn til liðs við okkur og ég hef líka skoðað menn sem ég hef ekki viljað taka þannig að við höfum haldið áfram að leita. Við erum ennþá að vinna í því að styrkja hópinn því hópurinn er fámennur. Við vorum með allt niður í 12-13 menn að spila í Lengjubikarnum. Að sama skapi eru strákarnir búnir að æfa vel í vetur og margir eru komnir í ágætis stand þó að aðrir séu ennþá eftir miðað við þær kröfur sem ég set."

Fimm erlendir leikmenn hafa gengið til liðs við BÍ/Bolungarvík en Guðjón segir að það hafi gengið erfiðlega að fá íslenska leikmenn til félagsins.

,,Það hefur ekki gengið vel, það verður bara að segjast eins og er. Við vorum að skoða hvað við gætum fengið á þessum íslenska markaði og það hefur ekki gengið mjög vel. Menn hafa litið það hornauga að fara vestur og menn bíða ekkert í röð eftir að fara þangað."

BÍ/Bolungarvík hefur æft á höfuðborgarsvæðinu í vetur og æft þar á nokkrum stöðum.

,,Við höfum haldið úti æfingum í Reykjavík og lagt á okkur vinnu og erfiðleika sem fylgja því að vinna í öðruvísi umhverfi. Við höfum æft vel og notið góðs af því að vera á vellinum hjá Þrótti í Laugardalnum og síðan í Kórnum. Aðalbækistöðvar okkar í vetur hafa verið í World Class, það hefur verið félagsheimilið okkar. Búningsklefastemning okkar hefur verið þar og í heitu pottunum þar niður frá."

Í næstu viku munu Guðjón og leikmenn liðsins síðan fara á Vestfirðina fyrir lokundirbúninginn fyrir mót.

,,Utanumhald verður þéttara og betra og við höfum okkar æfingaaðstöðu þar. Ég verð reyndar að þakka fólkinu sem hefur verið að liðsinna okkur í vetur, starfsfólkinu í Kórnum og fleira. Það hefur verið hjálplegt og alúðlegt fólk sem hefur hjálpað okkur en það er ekki eins og að vera heima hjá sér. Við förum í heimabyggð í næstu viku og þá kemur þetta utanumhald sem maður vill sjá í kringum liðið. Við reiknum með að taka tvær æfingar heima áður en við förum í fyrsta leik á móti ÍR."

BÍ/Bolungarvík hefur komist upp um tvær deildir síðan árið 2008 og uppgangurinn er mikill fyrir Vestan. Telur Guðjón að BÍ/Bolungarvík geti náð úrvalsdeildarsæti á næstu árum?

,,Þetta er alltaf spurning um það hvernig menn standa að sínum málum. Ég hef sagt við menn, getur ekki Vestursvæðið átt félag í efstu deild alveg eins og Vestmannaeyingar, Grindvíkingar og fleiri aðilar? Ef það á að gerast þarf mjög samstillt átak sveitarfélaganna fyrir vestan og allra sem standa að þessu. Það er eitt að líka hugmyndina að vera meðal þeirra bestu og annað að geta verið þar og lifað af. Það er mikil vinna sem þarf að eiga sér stað og töluvert átak ef menn vilja vera í hópi þeirra bestu. Það eru mjög metnaðarfullir menn í stjórninni sem ég er að vinna fyrir og þeir hafa mikinn metnað fyrir sínu svæði. Þeir eru að vonast til að það sem þeir eru að leggja að mörkum verði til þess að auka og stækka samstöðuna um að koma Vestfjörðunum á kortið og inn til frambúðar,“ sagði Guðjón að lokum.
banner
banner
banner
banner