
„Við erum að koma til baka úr löngu fríi svo þetta verður gríðarlega gaman," segir Baldur Sigurðsson, miðjumaður KR, en það verður stórleikur í 16-liða úrslitum Valitor-bikarsins í kvöld þegar KR tekur á móti FH.
„Þetta verður skemmtilegur leikur þar sem bæði lið vilja einhvern veginn hefna. Þeir hljóta að vilja hefna fyrir tapið núna um daginn þar sem þeir voru nú betri lungan af leiknum.," segir Baldur en KR vann 2-0 sigur í deildarleik þessara lið fyrir nokkrum vikum.
„Þrátt fyrir að við höfum unnið þann leik þá er þetta bikarinn og þeir tóku okkur í kennslustund í úrslitaleiknum í fyrra."
Þessi sömu lið mættust í úrslitunum í fyrra þar sem FH vann stórsigur 4-0. „Það verður blóð á tönnum í báðum liðum," segir Baldur sem býst við að leikurinn í kvöld verði jafnvel enn fjörugri en deildarleikurinn á dögunum.
„Ég hugsa að þessi verði jafnvel enn fjörugri þar sem þetta er nú bikarinn."
Búið er að draga í 8-liða úrslitin og því vitað mál að sigurvegarinn úr leiknum í kvöld mun mæta Keflavík í næstu umferð. „Leikirnir við Keflavík eru yfirleitt mínir uppáhalds leikir," segir Baldur sem þyrstir í að komast áfram.
Sjá má viðtalið við Baldur í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.