mán 07. nóvember 2011 09:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Haukur Ingi: Menn sameinast um að koma óorði á Suarez
Luis Suarez, sóknarmaður Liverpool.
Luis Suarez, sóknarmaður Liverpool.
Mynd: Getty Images
Fernando Torres fagnr marki.
Fernando Torres fagnr marki.
Mynd: Getty Images
„Mér lýst allavega betur á liðið í dag en fyrir ári síðan," segir Haukur Ingi Guðnason um Liverpool en hann var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardaginn. Haukur komst á samning hjá Liverpool 1997.

„Það var ljóst undir það síðasta hjá Rafael Benítez að hann var búinn að missa klefann. Það hefði kannski verið best að losa hann ári fyrr. Það var komin óeining innan liðsins og milli manna. Þegar hann hvarf á braut þá var ég mjög sáttur og leist vel á Roy Hodgson."

„Ég kannast þokkalega við Hodgson, hann kom nokkrum sinnum til Íslands þegar hann var með finnska landsliðið og svissneska landsliðsins. Pabbi (Guðni Kjartansson) sá þá um að sækja hann út á flugvöll og skutla honum. Hann kom oft í kaffi heim til mömmu og pabba eftir leiki," segir Haukur Ingi.

„Hann er einstaklega hugljúfur og þægilegur maður. Ég bjóst við því að þetta væri kannski maður sem þyrfti inn í hópinn hjá Liverpool miðað við það sem áður hafði verið. Það var ekki raunin. Honum gekk mjög illa en erfitt að segja hver ástæðan fyrir því sé. Margir vildu meina að hann væri of varnarsinnaður fyrir félag eins og Liverpool og það henti honum betur að vera með minni lið."

Dalglish í dýrðlingatölu
„Það er klárt mál að þessi skipti sem áttu sér stað þegar Kenny Dalglish kom inn aftur hafa hleypt nýju blóði í klúbbinn. Satt best að segja var ég ekki alveg viss um hvort þetta væri rétta skrefið þegar þeir skiptu á sínum tíma. Dalglish hafði verið lengi frá og það hafa orðið miklar og hraðar breytingar í fótboltanum. Ég hélt að hann yrði eftirbátur annarra hvað varðar nýjungar í þjálfun. En hann hefur komið inn með það sem þurfti."

„Hann hefur gríðarlega virðingu og er sú persóna sem hefur mesta virðingu hjá klúbbnum yfir höfuð. Stærstu leikmenn klúbbsins líta á hann í dýrðlingatölu og hann hefur verið sniðugur að fá menn með sér sem hafa verið að fylgja þessari þróun í fótboltanum. Þetta lítur allt betur út en fyrir ári síðan."

Ósanngjörn umræða að einhverju leyti
Andy Carroll hefur ekki fundið sig hjá Liverpool en Haukur telur ekki tímabært að afskrifa hann. „Það er kannski ekkert óeðlilegt þegar menn koma í nýtt félag að það taki kannski eitt tímabil að festa sig í sessi. Lítandi á þá reynslu þá er ég tilbúinn að gefa honum þetta tímabil og fá hann þá tvíefldan til leiks á næsta tímabili," segir Haukur.

Mikið hefur verið talað um Luis Suarez og hann sakaður um leikaraskap. Sir Alex Ferguson talaði til dæmis mikið um það í kringum viðureign Manchester United og Liverpool á dögunum að Suarez færi auðveldlega í jörðina.

„Að einhverju leyti er þessi umræða ósanngjörn. Það getur vel verið að það þurfi minna til að hann fari niður heldur en hjá þessum típísku bresku senterum. Það er líka þekkt í Bretlandi að menn þola ekkert minna en þegar einhver lætur sig detta. Cristiano Ronaldo fékk að kynnast því á sínum tíma."

„En það er líka þekkt að þegar menn eru flinkir og hraðir og góðir í fótbolta þá er farið meira í þig. Þegar þú ert mikið á ferð og ert að taka hraðar fintur þá þarf oft minna til að þú fallir en ef þú ert þessi stóri og sterki target-senter. Mér finnst menn hafa stokkið til og sameinast um að reyna að koma þessu orði á hann til að slá hann út af laginu. Þetta er barátta innan vallar sem utan."

„Ferguson var sniðugur og þetta er eitt af hans trixum. Með því að gera þetta að umræðuefni minnkaði hann líkurnar á því að fá víti á sig gegn Liverpool. Það er klárt mál að ef menn hafa það bak við eyrað og það er í umræðunni að einhver tiltekinn aðili sé dýfari eða láti sig detta þá eru meiri líkur á að dómarinn dæmi ekki víti. Þetta getur klárlega skipt máli þegar út í leikinn er komið," segir Haukur.

Nauðsynlegt að halda sambandi
Hann reynir enn að halda sambandi við Liverpool. „Ég reyni að fara út sem oftast. Ég stefni á að fara út á þessu tímabili og halda sambandi bæði við leikmenn og starfslið þarna í kringum klúbbinn. Það er nauðsynlegt að reyna að halda einhverju sambandi ennþá," segir Haukur sem var í kjölfarið spurður að því hvort möguleiki sé á því að hann muni reyna að fara í samstarf við Liverpool og fá jafnvel unga leikmenn frá félaginu til Fylkis þar sem hann er aðstoðarþjálfari.

„Ég er nú ekki farinn að hugsa svo langt en nú ertu að planta hugmynd! Það er aldrei að vita og maður er alveg tilbúinn að skoða það ef eitthvað slíkt er í boði. Það er samt ekki eitthvað sem ég er að pæla í á þessari stundu."

Lélegri að keyra bíl þegar þú talar í símann
Haukur Ingi er sálfræðingur að mennt og því var hann fenginn til að sálgreina aðeins Fernando Torres úr fjarska. Torres hefur ekki staðið undir væntingum síðan hann var keyptur til Chelsea og gengið illa að þenja netmöskvana.

„Það er enginn leikmaður sem er algjörlega ónæmur fyrir umhverfi sínu. Það er klárt mál að þegar það er borgað svona mikið fyrir hann og ætlast til að hann sé maðurinn sem skori í nánast hverjum einasta leik þá finnur hann fyrir þessum þrýstingi. Þegar fer að ganga illa og hann er ekki að skora þá er hætta á að athyglin á það sem skiptir máli fari eitthvað annað," segir Haukur um Torres.

„Hann er kannski í miðjum leik og klikkar færi þá dvelur hann lengur við það en þegar hann er í forminu sínu. Þegar maður er ekki með fókusinn á verkefninu sem þú ert í þá ertu lélegri í því. Það er eins og að það er bannað að tala í símann meðan þú ert að keyra bíl því þú ert þá lélegri að keyra hann. Það hefur margoft verið rannsakað. Það er hægt að yfirfæra það á íþróttir. Þegar athyglin er ekki óskert á því verkefni sem þú ert að vinna í hverju sinni þá ertu lélegri í því."

„Það er oft sagt að það sé erfiðara að sleppa í gegn frá miðju en að fá skyndilegt færi. Því þá er of mikill tími og maður fer að hugsa of mikið um hvað maður eigi að gera."

„Þegar Torres er kominn einn í gegn þá hugsar hann um að hann megi ekki klikka. Hann hugsar um hvort hann eigi að skjóta, vippa eða fara framhjá markverðinum. Hann hugsar of mikið óþarfa hugsanir. Þegar þú ert með leikmann eins og hann þá eru menn á einskonar sjálfstýringu. Þeir bara klára færin án þess að hugsa mikið um það," segir Haukur Ingi Guðnason.

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni með því að smella hér en spjallið við Hauk er á síðasta hálftíma þáttarins.
banner
banner
banner
banner
banner