,,Ég kunni vel við mig á Akureyri og vonandi á ég eftir að kunna ennþá betur við mig í Eyjum," sagði Gunnar Már Guðmundsson við Fótbolta.net í kvöld eftir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við ÍBV.
Gunnar Már var á láni hjá Þór í sumar og Akureyrarliðið reyndi einnig að krækja í hann frá FH. Gunnar Már var þó ekki spenntur fyrir því að leika með Þór í fyrstu deildinni.
,,Ef ég hefði farið í fyrstu deildina þá hefði ég alltaf farið í Fjölni, ég get ekki spilað á móti þeim," sagði Gunnar sem er uppalinn Fjölnismaður.
Gunnar Már gekk í raðir FH eftir að Fjölnir féll árið 2009 en meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum hjá Fimleikafélaginu.
,,Minn æfingatími hjá FH var aðallega á þrekhjólinu og vonandi breytist það núna. Ég vona að það sé ekki til þrekhjól í Eyjum."
Eyjamenn hafa endað í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar tvö ár í röð og Gunnar vill ná titlinum á næsta ári.
,,Það verður gerð atlaga að titlinum. Ef þú hefur verið í kringum 2 og 3. sætið undanfarin ár þá hlýtur stefnan vera sett á að vera númer 1."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.