Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fös 10. febrúar 2012 10:00
Einar Hermannsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Á hliðarlínunni
Einar Hermannsson
Einar Hermannsson
,,Ég er tilbúinn að vaða í þær tæklingar sem þarf til að tryggja að næstu 100 ár í íslenskri knattspyrnusögu fari sem allra best af stað.''
,,Ég er tilbúinn að vaða í þær tæklingar sem þarf til að tryggja að næstu 100 ár í íslenskri knattspyrnusögu fari sem allra best af stað.''
Mynd: Fótbolti.net - Andri Fannar
Laugardaginn 11. febrúar fer fram 66. ársþing KSÍ. Þau tímamót eru nú í íslenskri knattspyrnusögu að 100 skipulögð keppnisár eru að baki. Glæst fortíð sem allir unnendur íþróttarinnar geta verið stoltir af.

Sú hætta er ávallt fyrir hendi við slík tímamót að hreyfingin sofni á verðinum – sætti sig við hlutina eins og þeir eru, enda sé allt í besta lagi. Við eigum einmitt að nýta þessi tímamót til frekari afreka innan sem utan vallar. Við eigum að byggja á árangursríkri hefð og setja markið hátt. Við getum gert betur.

Afreksfólk innan sem utan vallar
KSÍ þarf að koma með sterkari hætti að barna- og unglingastarfi aðildarfélaga sinna. Auka þarf fræðslu og fjármagn, bæta aðstöðu og vinna að nýjungum í starfinu. Gleymum ekki að knattspyrnan getur og hefur gefið af sér mikið afreksfólk en það eru ekki síður þeir iðkendur sem komast ekki í þann flokk sem við þurfum að hlúa að.

Sendum krakkana ekki heim með skottið á milli lappanna bara af því þau komast ekki í A-liðið.Höldum þeim innan félaga og fjölgum valkostum. Störfin á hliðarlínunni eru ekki síður mikilvægur þáttur; þjálfarar, liðsstjórar, dómarar, stjórnarmenn og aðrir sem vinna almennt í kringum boltann gera það af hugsjón og ástríðu. Aukum veg og virðingu þeirra sem halda utan um afreksfólkið inni á vellinum.

Stelpurnar okkar
Kvennaknattspyrna. Er það önnur íþróttagein? Að sjálfsögðu ekki. Hættum að tala þannig um knattspyrnuiðkun kvenna. Stelpurnar hafa líka sýnt svo um munar að þær ná ekki síður árangri en strákarnir. Ævintýraleg uppganga síðustu ára og frábær afrek þeirra er sönnun þess. En því miður virðist okkur ekki hafa tekist að fylgja þessum árangri eftir. Staðreyndin er víst sú að iðkendum undir 15 ára fækkar. Hér þarf að lyfta grettistaki í markaðssetningu.

Við þurfum að fá fólk á völlinn -- ekki bara mömmu og litlu systur. Við þurfum að auka þátttöku atvinnulífsins í formi auglýsinga og styrkja, það er ekki bara samfélagsleg skylda fyrirtækjanna í landinu. Heldur er það, eins og sagt væri um karlaboltann, góður díll! Ungu stelpurnar þurfa fyrirmyndir ekki síður en strákarnir. Fjölgum kvennaleikjum í sjónvarpi, gerum kröfu um aukna umfjöllun fjölmiðla og sýnum stelpum sem hafa áhuga á öðrum hlutverkum, t.d. dómgæslu, að þær geti komist í úrvalsdeild karla og kvenna – á Íslandi, ekki bara í ensku úrvalsdeildinni.

Liðsheildin
Á knattspyrnuvellinum vinnast ekki sigrar öðruvísi en að liðið spili sem ein heild. Þannig þarf þetta líka að vera í forystu íslenskrar knattspyrnu. KSÍ þarf að vinna nánar og betur með aðildarfélögum sínum. Aukið samráð, sameiginleg stefnumörkun og samhent framkvæmd skila margfalt betri árangri.

Hann teldist varla góður sá þjálfari sem mætir aldrei á æfingar, veit ekki hver staðan á mannskapnum er en sendir svo byrjunarlið og leikskipulag í pósti merkt; lög og reglugerðir. Góður þjálfari þekkir sitt fólk, vinnur með því, hlustar og tekur rökum. Hann ber ábyrgðina og tekur að lokum þær ákvarðanir sem hann telur bestar, en aldrei án samráðs eða af vanþekkingu. KSÍ gegnir í raun ákveðnu þjálfarahlutverki, liðið er skipað aðildarfélögum þess og heimavöllurinn er Ísland allt – ekki bara þjóðartorfan í Laugardal.

Forgangsröðun fjármuna
Tekjur KSÍ eru einkum styrktarfé og framlög FIFA, UEFA og bakhjarla úr íslenskri fyrirtækjaflóru. Þá eru tekjur af sjónvarpsrétti umtalsverðar. Í ársreikningi sambandsins fyrir síðasta ár má lesa að framlög og styrkir til aðildarfélaga voru 82,6 mkr. eða 10,7% af ríflega 766 mkr. tekjum. Á sama tíma var skrifstofu- og stjórnunarkostnaður á 16 starfsmenn tæpar 169 mkr. eða rúm 22% af tekjum.

Við nánari skoðun getur vel verið að þetta teljist eðlilegt en aðalatriðið er eftir sem áður að stjórn KSÍ þarf að tryggja hagkvæmni í rekstri og hámarka það fé sem styrkir íslenska knattspyrnu og gerir hana enn betri. Það er forgangsmál, allt annað á að koma þar á eftir. Fjárhagsstaða KSÍ er traust og sambandið á því að geta eflt og styrkt grasrót knattspyrnunnar enn frekar á komandi misserum.

Með legghlífar og allt
Ætli ég sé ekki einn af þeim sem hefði aldrei komist í A-liðið inná vellinum. Það reyndi þó aldrei á það. Ég er hinsvegar einn af þeim sem starfa af hugsjón og ástríðu á hliðarlínunni. Á ársþingi KSÍ verða kjörnir fjórir nýir stjórnarmenn. Ég býð fram krafta mína í þeirri von að geta fylgt eftir ofangreindum áherslum. Ég er tilbúinn að vaða í þær tæklingar sem þarf til að tryggja að næstu 100 ár í íslenskri knattspyrnusögu fari sem allra best af stað.

Höfundur er framkvæmdastjóri AFA/JCDecaux á Íslandi og situr í stjórn meistaraflokks Fjölnis.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner