,,Það var svolítil pressa á okkur undir lokin en við náðum að setja þetta þriðja mark og þetta var góður sigur," sagði Björn Daníel Sverrisson við Fótbolta.net eftir 3-1 sigur liðsins á Leikni R. í Lengjubikarnum í kvöld.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 3 FH
Björn Daníel hefur í síðustu leikjum spilað í stöðu vinstri bakvarðar en ekki á miðjunni eins og oft áður.
,,Ég hef alltaf sagt að það er fínt að spila vinstri bakvörð hjá FH því maður er mikið í boltanum. Meðan við vinnum og liðið er að spila vel þá er þetta allt í góðu. Ég er líka svo góður bakvörður," sagði Björn Daníel léttur í bragði.
Björn Daníel er í treyju númer 10 hjá FH þessa dagana en fáir varnarmenn hafa borið það númer í gegnum tíðina.
,,Ég man eftir því að William Gallas var númer 10 í vinstri bakverði hjá Arsenal en ég vona að ég verði ekki í allt sumar í bakverði númer 10 þó að það sé skemmtileg tilbreyting."
Undanfarin ár hefur Björn leikið í treyju númer 9 en hann var fljótur að taka tíuna þegar Matthías Vilhjámsson fór til Start á láni.
,,Það er gaman að breyta úr 9 í 10 þó að það muni ekki miklu. Það þarf einhver að vera númer 10 og ég tók það bara á mig."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir