Oblak orðaður við Man Utd - Ungur leikmaður Blackburn á blaði Everton og Man Utd - Liverpool hefur enn áhuga á Bruno
banner
   mán 20. ágúst 2012 11:05
nr7.is
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
„Ég vil fá titilinn minn aftur“
Tryggvi Páll skrifar:
nr7.is
nr7.is
Ferguson afar spenntur fyrir þessum kaupum eins og handstaðan gefur til kynna.
Ferguson afar spenntur fyrir þessum kaupum eins og handstaðan gefur til kynna.
Mynd: Getty Images
Sjaldan hefur lið verið niðurlægt jafn mikið á Old Trafford og þetta kvöld.
Sjaldan hefur lið verið niðurlægt jafn mikið á Old Trafford og þetta kvöld.
Mynd:
Wayne Rooney segir brandara.
Wayne Rooney segir brandara.
Mynd:
Valencia fékk hið gríðarlega mikilvæga treyjunúmer 7 fyrir tímabilið.
Valencia fékk hið gríðarlega mikilvæga treyjunúmer 7 fyrir tímabilið.
Mynd:
Nú er fyrstu umferð tímabilsins nánast lokið og óhætt að segja hún hafi heldur betur staðið undir væntingum. Í kvöld mun umferðin klárast þegar leikmenn Manchester United hefja titilbaráttuna á Goodison Park gegn Everton. Stóra spurningin fyrir þennan leik er hvort að Robin van Persie muni spila sinn fyrsta leik fyrir United.

Þeirri spurningu verður auðsvarað í kvöld en við gætum einnig fengið vísbendingu um svar við annari spurningu sem hefur vaknað í kolli knattspyrnuáhugamanna eftir þessi kaup. Hvernig mun Robin van Persie passa inn í lið United og hvernig mun liðið spila með van Persie innanborðs?

Ef maður spurði stuðningsmann United fyrir tímabilið hverskonar leikmann liðið vantaði helst var svarið klárlega ekki: „Nýjan framherja“. United-spekingarnir í Bretlandi á Twitter töluðu mest um þörfina á nýjum miðjumanni, einhverjum eins og Roy Keane og svo þörfina á öðrum vinstri bakverði til þess að veita Patrice Evra samkeppni á nýjan leik. Þó að þeir væru auðvitað glaðir með kaupin á Robin van Persie töldu margir kaupin vera nokkuð undarleg þar sem liðið var jú auðvitað gríðarlega vel mannað í fremstu víglínu. Wayne Rooney, Javier Hernandez, Dimitar Berbatov og Danny Welbeck kæmust allir í byrjunarliðin hjá flestum liðum deildarinnar.

Eftir að Sir Alex Ferguson gekk frá kaupunum á Shinji Kagawa töldu menn að það væri víst að liðið myndi spila með einn framherja og Kagawa myndi taka að sér að spila í holunni fyrir aftan framherjann. Eins og staðan var fyrir mót var því ljóst að Rooney, Hernandez og Welbeck myndu keppa um eina stöðu. Nú er hinsvegar besti og markahæsti leikmaður síðustu leiktíðar búinn að bætast við þegar lið inniheldur leikmenn eins og hann og Rooney er auðvitað morgunljóst að það þarf að finna leið til að spila þeim saman. Það virðist því vera ólíklegt að gamli refurinn láti lið spila með einn framherja.

Þeir sem eru með óvenjugott minni muna eftir leiktímabilunum 2006/2007 og 2007/2008. Lið United var sérstaklega vel mannað í framlínunni, Carlos Tevez, Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo léku lausum hala. Spiluð var einhverskonar útgáfa af 4-3-3 þar sem fremstu þrír skiptu reglulega um stöður, bakverðirnir fylgdu vel með á meðan tveir af hinum þrem miðjumönnum sátu til baka og vernduðu vörnina. Þriðji miðjumaðurinn sá svo um að styðja við bakið á sóknarmönnunum. Þetta skilaði sér í algjörlega frábærri knattspyrnu með blöndu af vel útfærðum skyndisóknum og góðu spili. Hápunkturinn var sjálfsagt spilamennska liðsins þegar liðið gjörsamlega kjöldróg sterkt lið Roma á heimavelli 7-1 þar sem hvert markið var öðru fegurra. Á endanum vann liðið bæði deildina og Meistaradeildina.

Þegar Cristiano Ronaldo hvarf á braut fyrir metfé þurfti hinsvegar að legga þessa uppstillingu til dvalar. Uppstillingin var auðvitað sérstaklega hönnuð til þess að hámarka frammistöðu hans. Að auki fór Carlos Tevez einnig á brott og forsendurnar fyrir því að spila á þann hátt sem liðið hafði spilað voru horfnar. Niðurstaðan varð sú að liðið breytti um áherslur og fór að spila meiri í ætt við 4-5-1 eða 4-4-2. Liðið varð varnarsinnaðara og spilaði ekki jafn ævintýralegan bolta og áður. Þetta var ekki af vilja gert heldur af illri nauðsyn. Þegar leikmenn eins og Ronaldo og Tevez fara á brott er auðvitað illmögulegt af að skipta þeim út og ætlast til þess að fá svipaða leikmenn í staðinn.

Núna eru hinsvegar forsendur fyrir því að færa sig aftur yfir í þá liðsuppstillingu sem gerði United að sterkasta og besta liði Evrópu. Nú hefur Ferguson á ný leikmannahópinn í það. Rooney og RvP geta leikandi spilað saman í þesskonar uppstillingu ásamt hinum framherjunum. Þessir tveir leikmenn eru einstaklega hæfileikaríkir og góðir fótboltamenn með frábærar hreyfingar og í þessari uppstillingu gæti Ferguson náð hinu besta fram úr þeim báðum á sama tíma. Jafnframt gerir þessi uppstilling gerir það að verkum að auðvelt er að tryggja öllum framherjum liðsins nægan spilatíma. Að auki geta kantmennirnir þrír í liðinu, Antonio Valencia, Ashley Young og Nani vel leist eina af þeim stöðum í framlínunni enda þarf a.m.k einn af þessum þrem framherjum að gegna skyldum vængmanns.

Shinji Kagawa mun líklega spila sem fremsti maður í þriggja manna miðju með tvo leikmenn sem spila aðeins fyrir aftan hann. Hlutverk Kagawa verður það að aðstoða sóknarmenn liðsins, vera sá sem kemur með síðustu sendinguna og sá leikmaður sem mætir í seinni bylgjuna. Fyrir aftan hann verða miðjumenn sem sinna meiri varnarskyldun auk þess sem þeir stjórna spilinu og verða tryggja það að flæði sé á leik liðsins. Einn af þessum miðjumönnum verður að liggja aðeins til baka og vernda varnarlínuna. Það verður líklegast Michael Carrick enda eini miðjumaðurinn í liðinu sem getur talist sem varnarsinnaður. Fyrir utan þá stöðu geta allir miðjumenn liðsins spilað hinar tvær stöðurnar.

Bakvarðastöðurnar eru einnig mikilvægar enda þurfa bakverðirnir að fylgja vel með í sóknina til þess að auka breiddina. Patrice Evra, þrátt fyrir að hafa dalað undanfarið, er auðvitað góður bakvörður, sérstaklega sóknarlega og kann þessa rullu vel, spilaði hana með góðum árangi þegar leikkerfið var nýtt. Hægra megin er Rafael eini hreinræktaði bakvörðurinn sem er tiltækur. Honum er sóknarleikurinn í blóð borinn enda frá Brasilíu. Hann fékk tvistinn hans Gary Neville og því ljóst að menn treysta honum á Old Trafford. Að auki hefur Ferguson gælt við að nota Antonio Valencia í hægri bakverðinum á undirbúningstímabilinu. Ef Valencia verður notaður þar í þessari uppstillingu er auðvelt að fullyrða að aldrei hafi Ferguson ráðið yfir liði með jafn mikla hæfileika til þess að blása til sóknar. Margir leikmenn liðsins eru einnig fjölhæfir og geta spilað margar stöður. Á þessu tímabili munum við sjá talsverða róteringu á byrjunarliðinu Fantasy-stjórum sér til mikillar armæðu. Það ætti hinsvegar að ýta undir samkeppni um stöður í liðinu og gerir það að verkum að menn verði ferskari í leikjum.

Síðustu tvö ár hefur spilamennsku liðsins hrakað og þrátt yfir að liðið hafi nælt sér í 87 stig á síðusta tímabili var frammistaða liðsins oft á tíðum afar dræm og erfið. Með þeirri uppstillingu sem rætt hefur verið hér um gæti Ferguson nýtt sér krafta sóknarmanna sinna og náð þeirra allra besta fram. Sem stjóri sem hefur alltaf verið hallur undir sóknarbolta verður það að teljast líklegt að við munum á næstu mánuðum sjá Ferguson færa sig smátt og smátt yfir í þessa uppstillingu. Það hentar honum mun betur sem þjálfara að blása til sóknar og hann ætlar í það minnsta ekki að tapa titlinum á markamun aftur.

Árið 1999 vann United þrennuna og var það að miklu leyti að þakka því að liðið var með fjóra frábæra framherja sem allir spiluðu stóra rullu það tímabil. Með kaupunum á van Persie er ljóst að gamli ætlar ekki bara að endurheimta deildartitilinn sinn. Hann ætlar einnig að bæta fyrir vonbrigðin í fyrra og næla sér í það sem hann óskar sér heitast, nefilega þriðja meistaradeildartitilinn. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að Ferguson muni fresta því að leggja kalktöfluna á hilluna eins lengi og hann getur þangað til hann vinnur þriðja meistaradeildartitilinn. Þá getur enginn haldið öðrum fram en að hann sé mesti knattspyrnustjóri allra tíma.

Smelltu hér til að taka þátt í umræðum um þessa grein á nr7.is
Athugasemdir
banner
banner