Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
banner
   mán 29. október 2012 19:30
Kristján Atli Ragnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Dónaskapur og dómgæsla
Höfundur er stuðningsmaður Liverpool - Pistillinn birtist á vefsíðunni kop.is
Kristján Atli Ragnarsson
Kristján Atli Ragnarsson
Luis Suarez er vinsælt umræðuefni.
Luis Suarez er vinsælt umræðuefni.
Mynd: Getty Images
Ég er orðinn þreyttur á enskri knattspyrnu.

Kannski er það að hluta til eðlilegt. Ég og Einar Örn stofnuðum Kop.is fyrir átta og hálfu ári og síðan þá hefur rekstur hennar tekið hluta af hverjum degi hjá mér. Ég hef alltaf verið harður Púllari og eytt tíma í að lesa um og fylgja mínu liði og fylgjast almennt með enska boltanum en síðan Kop.is fór í loftið hef ég fylgst nánast yfir mig mikið með enskri knattspyrnu.

Á þessum tíma, og í gegnum árin, hafa alltaf komið upp umdeild atvik í enska boltanum. Eric Cantona var gríðarlega umdeildur leikmaður, stuðningsmenn United elskuðu hann en allir aðrir hötuðu hann. Fleiri slíkir hafa prýtt stórliðin, menn eins og Didier Drogba, Patrick Vieira, Roy Keane, Ashley Cole, Cristiano Ronaldo, John Terry og svo mætti lengi telja. Það eru alltaf einn eða tveir svona í hverri deild, til dæmis hefur Kjartan Henry Finnbogason gegnt þessu hlutverki á Íslandi síðustu sumrin.

Þessir leikmenn eiga það allir sameiginlegt að vera frábærir knattspyrnumenn. Það er lykilatriði – ef leikmaðurinn væri bara umdeildur og ekkert sérstaklega góður (dæmi: Michael Brown eða Robbie Savage) þá væri auðvelt að hata hann en um leið auðvelt að hundsa hann, og stuðningsmenn liðs viðkomandi væru ekkert svo æstir í að verja viðkomandi.

Það er öðruvísi þegar um einn af betri leikmönnum heims ræðir. Cristiano Ronaldo fór ómennskt mikið í taugarnar á flestum stuðningsmönnum annarra liða en United-menn elskuðu hann því hann spilaði jú líka ofurvel fyrir þá, auk þess að vera umdeildur. Það sama gildir um alla hina.

Í dag er það verkefni okkar manns, Luis Suarez, að bera þennan kyndil, auk kannski einna helst John Terry hjá Chelsea. Það er ekki tilviljun að þeir hafi báðir lent í sams konar máli síðasta árið. Það eru slík mál, auk annarra umdeildra atvika þeirra félaga, sem hafa komið þeim í þessa stöðu. Báðir eru frábærir leikmenn sem lið þeirra treysta á en um leið virðist hneykslunin elta þá.

Þið þekkið sögurnar.

Málið er bara að það sem veldur mér mestum vonbrigðum er blinda stuðningsmanna gagnvart leikmönnum annarra liða. Stuðningsmenn United voru brjálaðir yfir þeirri meðferð sem Cristiano Ronaldo fékk í mörg ár á Englandi en þeir hika ekki við að ganga harðast fram gagnvart Luis Suarez. Stuðningsmenn Liverpool hötuðu Ronaldo og verja Suarez með kjafti og klóm í dag en munu pottþétt ekki hika við ef þeir fá aftur tækifæri til að drulla yfir næsta United-mann. Chelsea-mönnum fannst gott á Suarez að lenda í leikbanni fyrir ósannað kynþáttaníð en voru brjálaðir þegar Terry fékk sömu örlög, og öfugt.

Ef það er „minn“ leikmaður er ég brjálaður ef hann er hlunnfarinn á nokkurn hátt. Ef það er leikmaður „hinna“ er mér alveg sama þótt hann verði fyrir öllu ósanngjörnu. Og svo endalaust framvegis.

Undanfarið finnst mér þetta hins vegar hafa versnað til muna. Í átta og hálft ár hef ég fylgst með nánast öllu sem tengist enskri knattspyrnu og mér finnst þetta hatur á milli stuðningsmanna liða hafa versnað fram úr öllu hófi síðustu eitt eða tvö árin. Ég veit ekki hvað veldur, maður verður brjálaður yfir hinu og þessu á hverjum einasta vetri en núna er eins og umræðan sé orðin ljótari en nokkru sinni fyrr.

Ég leitaði að gamni mínu að orðinu Suarez á íslensku á Twitter í dag og fann nokkur góð dæmi um það hvers konar umræða ríkir á Íslandi. Hér eru nokkur ummæli sem féllu um Suarez yfir leiknum í gær og eftir leik:Ég þekki engan þessara manna persónulega og ætla ekki að alhæfa neitt um þá. Þetta eru eflaust allt fínir Íslendingar eins og ég og þið hin. En þeir þekkja Luis Suarez ekki neitt heldur persónulega. Þeir sjá að hann skorar mörk, spilar vel, rífst í dómurum, tekur stöku dýfu til að vinna aukaspyrnur og brýtur af og til af sér og fær gul spjöld. Svona bara eins og 99% knattspyrnumanna í heiminum.

Rotta. Viðbjóður. Kunta. Ógeð. Viðjóðslegur karakter. Og svo framvegis, og svo framvegis…Þetta er maðurinn sem þeir eru að tala um. Enginn þeirra þekkir hann persónulega en hann er nánast réttdræpur af því að hann tekur stundum dýfur á knattspyrnuvelli. Mér þætti gaman að sjá þá dæma til dæmis frændur sína eða vini jafn hart ef þeir gerðust sekir um slíkt.

Auðvitað er hægt að finna svona dæmi um Drogba, Terry, Ronaldo og alla hina. Liverpool-stuðningsmenn hata þegar Suarez er úthúðað svona en eru svo ekkert betri í garð leikmanna annarra liða. Það er það sem ég á við. Umræðan er orðin fáránlega ljót og ógeðsleg, svo ljót að það er varla við hæfi barna að ætla að lesa Facebook og Twitter í kringum stórleiki og Kop.is væri svo sannarlega ekki við hæfi barna ef við ritskoðuðum ekki ummæli hérna.

Ég er orðinn verulega þreyttur á þessu, og ég vildi óska þess að þetta hætti. Þegar allt kemur til alls og leikmenn skipta úr búningum liða sinna og yfir í hversdagsfötin, þá fara þeir allir heim til fjölskyldna sinna og reyna að lifa sínu lífi eins og við hin. Ég vildi óska að stuðningsmenn hefðu þetta aðeins oftar í huga og þá sérstaklega þegar leikmenn andstæðinganna eiga í hlut.

Eins þreyttur og ég er orðinn á umræðunni er samt annað sem pirrar mig meira við enska knattspyrnu.

Eins og ég sagði hér að ofan eru umdeild atvik ekki ný af nálinni. Leikmenn, atvik og leikir, allt hefur þetta verið umdeilt og reglulega rifist um hvað er sanngjarnt og hvað ekki. Hins vegar sér það hvert heilvita mannsbarn að það stefnir í óefni hvað varðar knattspyrnu á heimsmælikvarða og dómgæslu.

Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að kvarta yfir dómaranum. Ég hef alltaf haft það að leiðarljósi að viðurkenna ósigur þegar hann ber að hendi og ég hef aldrei þolað gæjann sem snýr út úr og forðast að viðurkenna að hans menn hefðu getað gert betur.

Dæmi: Arsenal komu á Anfield í haust og unnu verðskuldað. Voru betri aðilinn og áttu skilið sigur.

En svo koma stundum upp atvik, það er bara þannig, þar sem maður verður að taka það fram að úrslit leiksins eru ekki endilega í takt við gang leiksins.

Dæmi: Manchester City komu á Anfield í haust og fengu gefins jafntefli. Liverpool átti að vinna þann leik en ein slæm mistök kostuðu liðið sigur og gáfu City stig á silfurfati.

Ekkert að þessu heldur og lítið um þetta rifist. En svo kárnar gamanið þegar kemur að dómurunum. Að Martin Skrtel gefi City stig er pirrandi en menn verða að kyngja því. Það stoðar lítið að vera betri aðilinn þegar einn af ellefu leikmönnum liðsins gefur stig.

En þegar dómarinn á í hlut? Þá sýður á manni. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf. Á síðustu leiktíð fannst mér með ólíkindum hvað Liverpool naut lítillar sanngirni dómara. Ég spurði mig oft hvort þetta væri paranoja í okkur Púllurum, hvort við gætum verið sanngjarnari við dómara en ég komst jafnan að þeirri niðurstöðu að þetta væri bara hrikalega svekkjandi og ósanngjarnt. Ekki var á bætandi hjá liðinu í fyrra en stórar ákvarðanir í allt of mörgum leikjum féllu gegn okkur og gerðu illt verra.

Í haust hugsaði ég með mér að þetta gæti varla annað en batnað. Það væri ekki séns að við myndum upplifa annan eins vetur þar sem liðinu virtist fyrirmunað að fá vafaatriði sér í hag.

Það hefur þó heldur betur orðið raunin. Óháða vefsíðan Debatable Decisions heldur utan um öll stóru atriðin í hverjum leik í Úrvalsdeildinni. Það er að segja, atriði sem kosta lið mörk eða færa liði mörk og voru umdeild. Það er skemmst frá því að segja að fyrir umferð helgarinnar var Liverpool neðst í þessari deild. Fimm umdeild atriði alls í fyrstu átta umferðunum og ekki eitt þeirra hafði fallið rétt, Liverpool í hag. Fimm umdeild atriði sem skv. vefsíðunni höfðu kostað Liverpool þrjú stig.

Við getum breytt því í sex umdeild atriði sem hafa kostað Liverpool fimm stig, núna.

Og þetta er einfaldlega hætt að vera fyndið.

Enskir blaðamenn og knattspyrnustjórar keppast við að úthúða hinu og þessu. Rasisminn er að eyðileggja fótboltann, blótsyrði Wayne Rooney og fleiri eru að eyðileggja fótboltann, dýfingar eru að eyðileggja fótboltann, peningar eru að eyðileggja fótboltann.

Vitið þið hvað er í alvöru að eyðileggja ensku deildina? Dómgæslan. Ef þið trúið mér ekki skulið þið horfa á nokkra leiki með stærstu liðunum á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi um næstu helgi. Það er eins og svart og hvítt að horfa á þá leiki og þótt stöku mistök séu gerð eru þau langt því frá jafn víðtæk og sjást í ensku Úrvalsdeildinni.

Gærdagurinn var eins og hálfgert skyndinámskeið í stöðu enskrar dómgæslu. Eftir að Arsenal fengu ólöglegt sigurmark ranglega dæmt gilt á laugardag (+2 stig fyrir þá) skoraði Luis Suarez löglegt sigurmark gegn Everton í gær en það var ranglega dæmt af af því að aðstoðardómarinn hélt að það væri rangstaða (-2 stig). Tveimur tímum seinna fékk Manchester United svo gefið gilt sigurmark gegn Chelsea sem var rangstaða (+2 stig) og fyrir vikið dróst Liverpool tveimur stigum til viðbótar aftur úr erkifjendum sínum, í stað þess að draga á þá tvö stig eins og helgin hefði með réttu átt að skila.

Og sigurmark United? Það kom eftir að Fernando Torres var rekinn út af fyrir „dýfu“ sem við höfum séð viðgangast án refsingar í hverri umferð í mörg, mörg ár. En af því að umræðan um dýfur hefur verið mikil undanfarið var sennilega búið að gefa út nýja línu í dómgæslunni og fyrir hana leið Torres í gær. Svipað og Javier Mascherano leið fyrir umræðuna í kjölfar hegðunar Ashley Cole í garð dómara á White Hart Lane fyrir fjórum árum. Þá komst Cole upp með mikil ólæti við dómara, umræðan gekk í heila viku um að það yrði að taka hart á svona og að menn yrðu að sýna dómurum virðingu, og svo mætti Mascherano á Old Trafford og fékk tvö gul með nokkurra sekúndna millibili fyrir algjöran tittlingaskít.

Suarez dýfir sér gegn Stoke og sleppur. Welbeck dýfir sér gegn Wigan og sleppur. En svo nær umræðan hámarki og Torres er rekinn út af fyrir lítið sem ekkert.

Sjáiði mynstur hérna?

Og hvernig bregðast stuðningsmenn liðanna við? Jújú, Liverpool-menn eiga að þegja af því að Everton var víst snuðað um löglegt mark gegn Newcastle fyrr í haust. Chelsea-menn eiga að þegja af því að einhverjir dómar féllu með þeim gegn United á síðustu leiktíð. Og næst þegar Liverpool eða Chelsea fá eitthvað sem þeir eiga ekki skilið munum við benda á leikina í gær sem réttlætingu. Ég má alveg stela frá Jóni af því að Pétur stal frá mér um daginn, nananana búbú!

Og þess vegna gerist ekkert. Af því að í stað þess að menn séu einu sinni sammála um að kvarta almennilega yfir dómgæslunni leysist umræðan alltaf upp í vitleysu og typpakeppni milli stuðningsmanna liðanna. Menn verja sína og sjá aldrei lengra en yfir eigin landamæri. United-menn geta ómögulega viðurkennt að þeir hafi fengið sigurinn gefins í gær, eða á Anfield fyrir mánuði, og benda frekar á síðustu skipti sem þeirra menn voru hlunnfarnir til að snúa út úr. Everton-menn gera það sama. Við líka, við erum ekkert betri þegar Liverpool fá hlutina gefins. Það er bara svo helvíti langt síðan Liverpool fékk stóru atriðin frítt frá dómurum að maður er farinn að taka skýrar eftir þessu núna.

Þetta er bara orðið svakalega þreytt, allt saman. Dómgæslan er að eyðileggja boltann, ekki síst þegar ákveðnir leikmenn virðast ekki eiga að spila á sömu reglum og aðrir. Ég er ekki bara að tala um Luis Suarez. Ég er að tala um menn eins og Marouane Fellaini…

Hér var dæmd aukaspyrna á Joe Allen. Í alvöru.

Það er líka orðið þreytt þegar stuðningsmenn beita ógeðslegum orðum um leikmenn annarra liða, eða hver aðra. Þetta er bara allt orðið svo ljótt og þreytt. Stundum segi ég við sjálfan mig að ég muni fljótlega hætta að horfa og fara að gera eitthvað annað, eitthvað uppbyggilegra við tímann. Það á eflaust aldrei eftir að gerast. En mikið djöfull er ég hættur að nenna þessu.Pistill birtur með leyfi vefsíðunnar kop.is
Athugasemdir
banner
banner