Nú þegar stutt er í að Martin Ödegaard fari að halda bolta á lofti fyrir framan fjölmiðlafólk og aðdáendur Real Madrid er Noregur á hliðinni. Vonarstjarna norska boltans númer eitt er loksins búin að velja sér félag eftir að hafa ferðast um alla Evrópu og látið dekra við sig hjá stórliðum.
Það var hart barist um þjónustu Ödegaard og miðað við tímann sem hefur farið í ákvörðunina er ljóst að það eru ýmis loforð og klásúlur í gangi sem við höfum ekki hugmynd um en munum vonandi komast að. Það er búið að gera ítarlega áætlun um hvernig þróun leikmannsins eigi að vera.
Tíminn einn mun leiða í ljós hvort það hefði verið sniðugra fyrir Ödegaard að taka aðeins minna skref, fara í félag eins og Ajax sem margrómað er fyrir að þróa unga leikmenn. Hugmyndir Real Madrid hafa náð að heilla Ödegaard og föður hans sem sagður er vera með gott fótboltavit. Vonandi hafa þeir allavega horft meira á þær en veskið.
Er verið að ofpeppa hæfileika leikmannsins er ein spurning sem oft hefur heyrst. Er hann bara næsti Freddy Adu? Allir þeir sem ég hef heyrt tjá sig og hafa fylgst almennilega með Ödegaard virðast sannfærðir um að þarna verði til stórstjarna. Þessi sextán ára strákur býr yfir gríðarlegum hæfileikum og leikskilningi. En skrefin frá norska boltanum til Real Madrid eru vissulega mörg.
Norskir fjölmiðlamenn hafa elt Ödegaard um alla Evrópu og margir dálksentimetrarnir í blöðunum farið í að segja frá hverju skrefi leikmannsins unga. Talað er um að ekki sé vottur af hroka í stráknum og hann virðist í öllum viðtölum vera með báða fætur á jörðinni. Það er meira sem liggur að baki gríðarlegrar umræðu um Ödegaard en bara hæfileikar hans.
Norskur fótbolti þarf á Ödegaard að halda. Landsliðið hefur verið í lægð og oft talað um að landið sé að dragast of langt á eftir öðrum í boltanum. Norskir spekingar tala um að Ödegaard sé vonin og hann geti lyft norskum fótoblta í heild sinni aftur upp á beinu brautina.
Þarna er skyndilega komin ung stjarna sem allir ungir fótboltakrakkar líta upp til. Það vilja allir fylgja í fótspor Ödegaard og þarna er komin fyrirmynd sem gæti reynst vítamínsprauta fyrir norska boltann og fótboltaáhuga í landinu.
Engin smá ábyrgð á herðum sextán ára stráks.
Fleiri Ödegaard fréttir:
Æfir bæði með aðal- og varaliðinu
Ödegaard: Óraunverulegt að sitja hér
Ödegaard eyddi tísum um Messi
Pistill: Galacticoinn sem á að redda Noregi
Sagður fá 2,3 milljónir á dag
Ödegaard til Real Madrid (Staðfest)
Varar Ödegaard við því að ganga til liðs við Real Madrid
Ödegaard meðhöndlaður eins og kóngur
Verður Ödegaard flopp eins og Freddy Adu?
Don Balon listinn: Ödegaard sá yngsti
Pabbi gaf leyfi á að Ödegaard yrði í FM15
Fimmtán ára norskur strákur sló met Sigga Jóns
Athugasemdir