Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mið 13. apríl 2016 13:00
Þórður Már Sigfússon
Mismunandi eigendur þjóðarleikvanga á Norðurlöndum
Íslenskir stuðningsmenn fagna á Ullevaal í Osló.
Íslenskir stuðningsmenn fagna á Ullevaal í Osló.
Mynd: Fótbolti.net - Árni Torfason
Telia Parken í Kaupmannahöfn.
Telia Parken í Kaupmannahöfn.
Mynd: Getty Images
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tórsvöllur í Færeyjum árið 2012; leikvangurinn hefur tekið stakkaskiptum síðan þessi mynd var tekin.
Tórsvöllur í Færeyjum árið 2012; leikvangurinn hefur tekið stakkaskiptum síðan þessi mynd var tekin.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net mun á næstu dögum fjalla um mál sem tengjast framtíð Laugardalsvallar og samanburður gerður á því hvernig umhorfs er í málum erlendra knattspyrnusambanda. Kveikjan að þessari umfjöllun er frétt sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku þess efnis að Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, hefur óskað eftir formlegum viðræðum við Reykjavíkurborg um kaup á Laugardalsvellinum.

Ljóst er að slík eigendaskipti gætu haft mikil áhrif á þróun og uppbyggingu á svæðinu. Með það í huga skoðaði Fótbolti.net hvernig eigendasamsetning á þjóðarleikvöngum nágrannaríkja okkar er háttað en eignarhlutar á leikvöngum, hvort sem þeir eru skilgreindir sem þjóðarleikvangar eða ekki, eru misjafnir.

Það skal tekið fram að í þessari umfjöllun miðast skilgreining þjóðarleikvanga ekki við það að þeir skuli vera í eigu ríkisins heldur að þar fari fram helstu keppnisleikir landsliða og að þeir séu skilgreindir sem heimavöllur viðkomandi landsliðs.

Fjölbreytt eigendaflóra
Fari svo að KSÍ festi kaup á Laugardalsvellinum og verður 100% eigandi mun fyrirkomulagið verða líkt og það er í Noregi en Ullevaal, þjóðarleikvangurinn í knattspyrnu, er að fullu í eigu norska knattspyrnusambandsins.

Þrátt fyrir það er ýmis önnur í starfsemi í tengslum við leikvanginn eins og t.a.m. ráðstefnuhótelið Thon. Í lýsingu hótelsins á TripAdvisor segir að hægt sé að sjá grasið á vellinum frá morgunverðarherberginu.

Það að samnýta ýmsa starfsemi í tengslum við leikvanga hefur færst mjög í vöxt en auk hótelstarfsemi er algengt að fjölnotaíþróttahallir, verslunarmiðstöðvar, kaffihús, ráðstefnumiðstöðvar, menningar- og fræðslumiðstövar auk höfuðstöðva ýmissa sérsambanda séu hluti af þeirri einingu sem myndar nýja knattspyrnuleikvanga.

Í Svíþjóð er eignarhlutur nýja þjóðarleikvangsins, Friends Arena, með öðrum hætti en í Noregi. Þar eru sex aðilar skilgreindir sem eigendur; sænska knattspyrnusambandið, tryggingafélagið Folksam, sveitarfélagið Solna, fasteignafélagið Jernhusen, byggingarfélagið Peab og fasteignafélagið Fabege.

Þetta er í takt við það sem Lars Lagerback, annar landsliðsþjálfara Íslands, sagði í svari við spurningu lesenda á Fótbolti.net fyrir stuttu. „Í Svíþjóð hefur þetta verið gert víða undanfarin tíu ár. Landið hefur verið gefið til byggingarfyrirtækja sem hafa byggt nýjan leikvang og eitthvað annað á sama svæði sem fjármagnar allt,” segir í svari Lagerback.

Líklegt verður að teljast að KSÍ íhugi kaup á Laugardalsvellinum með samvinnu við aðra aðila, á borð við byggingar- og fasteignafélög, í huga.

Gamli þjóðarleikvangur Svía í knattspyrnu, Rasunda Stadium, var alfarið í eigu sænska knattspyrnusambandsins.

Í Danmörku er málum hins vegar öðruvísi farið en Telia Parken í Kaupmannahöfn, óumdeilanlega frægasti knattspyrnuleikvangur Norðurlandanna, er alfarið í eigu danska fyrirtækisins, Parken Sport and Entertainment.

Í lýsingu á fyrirtækinu segir að það sé leiðandi í skipulagninu á íþrótta- og skemmtiviðburðum í Danmörku. Í eigu fyrirtækisins auk Parken er danska knattspyrnufélagið FC Kaupmannahöfn, sem spilar heimaleiki sína á Parken, og tveir Lalandia skemmtigarðar í Rödby og Billund.

Hins vegar eru uppi hugmyndir um byggingu nýs stærri þjóðarleikvangs í tengslum við hugsanlega lokakeppni EM sem gæti farið fram á Norðurlöndunum einhvern tímann á næsta áratug. Hann yrði væntanlega í meirihlutaeigu danska knattspyrnusambandsins.

Í Finnlandi er þjóðarleikvangurinn í knattspyrnu stór alhliða leikvangur þar sem frjálsar íþróttir njóta sín líka enda er um að ræða gamla Ólympíuleikvanginn í Helsinki.

Leikvangurinn er í eigu finnska ríksins, Helsinkiborgar auk helstu íþróttasérsambanda Finnlands.

Nú standa yfir endurbætur á leikvanginum sem áætlað er að muni standa yfir til ársins 2019. Kostnaðurinn, sem talinn er muni nema um 30 milljörðum króna, mun skiptast á milli finnska ríksins og Helsinkiborgar.

Hinn glæsilegi Tórsvöllur í Færeyjum er alfarið í eigu Þórshafnar.

Fótbolti.net mun á næstu dögum fjalla um mál Laugardalsvallarins og rýna aðeins í þá stöðu sem komin er upp varðandi framtíðaráætlanir á svæðinu. Hugsanleg aðkoma UEFA að leikvangamálum verður m.a. skoðuð með styrkjakerfi sambandsins í huga en Fótbolti.net hefur rætt við aðila innan sambandsins um þessi mál.
Athugasemdir
banner