Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fös 15. apríl 2016 12:30
Þórður Már Sigfússon
Leikvangar frekar í meirihlutaeigu aðildarsambanda UEFA
Fótbolti.net heldur áfram umfjöllun um stöðu Laugardalsvallar
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Albanskir stuðningsmenn geta fagnað nýjum þjóðarleikvangi.
Albanskir stuðningsmenn geta fagnað nýjum þjóðarleikvangi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svona mun nýr þjóðarleikvangur Albaníu líta út.
Svona mun nýr þjóðarleikvangur Albaníu líta út.
Mynd: ManicaArchitecture
Eins og kom fram á Fótbolti.net í gær er styrkjakerfi til staðar innan UEFA sem úthlutar fjármagni til aðildarsambanda. Hins vegar er UEFA, réttilega, sjaldan tilbúið að ausa úr sjóðum sínum til verkefna sem eru á vegum annarra aðila en aðildarþjóða.

UEFA leggur mikla áherslu á að þau verkefni sem styrkir renna til séu í meirihlutaeigu knattspyrnusambanda viðkomandi þjóða. Það á líka við um þjóðarleikvanga.

Sambandið leggst þó ekki gegn styrkjum fyrir verkefni séu þau í meirihlutahlutaeigu annarra aðila, en þá er ekki um að ræða háar fjárhæðir og uppbyggingin óumtalsverð. Hins vegar verður aðkoma aðildarsambanda ávallt að vera til staðar.

UEFA hefur t.a.m. komið að uppbyggingu Laugardalsvallarins með sóma, þrátt fyrir að leikvangurinn sé í eigu Reykjavíkurborgar. KSÍ er rekstraraðili leikvangsins en það má velta því fyrir sér hvort UEFA hafi verið viljugri að ráðst í stærri fjárfestingaverkefni tengdum leikvanginum hafi hann verið eign KSÍ.

UEFA skarst í leikinn í Georgíu
Það eru til dæmi um þessa stefnu UEFA og eitt þeirra má finna í fyrrum sovétlýðveldinu Georgíu. Þar var Mikheil Meskhi leikvangurinn í Tíblisi að grotna niður og reyndist viðhald hans vera þungur baggi á borginni.

Fyrir sex árum ákváðu borgaryfirvöld í Tíblisi hins vegar að færa eignarhlutann alfarið í hendur knattspyrnusambands Georgíu vitandi það að UEFA yrði þá tilbúið að styrkja enduruppbyggingu leikvangsins.

Þegar eigendaskiptin voru síðan staðfest veitti UEFA knattspyrnusambandi Georgíu styrk í formi HatTrick III. Styrkurinn nam 80% kostnaðar við enduruppbygginguna en afgangurinn var dekkaður af knattspyrnusambandi Georgíu og helsta styrktaraðila þess; SOCAR, sem er ríkisolíufélag Azerbaijan. Óstaðfestar tölur benda til þess að UEFA hafi lagt fram um einn milljarð króna til verksins.

Tekið skal fram að ekki var um algjöra enduruppbyggingu leikvangsins að ræða enda er það ekki tilgangur styrkjakerfisins. Um var að ræða að nútímavæða leikvanginn með því að fjölga og skipta um öll sæti, fjölga inngöngum, útbúta neðanjarðarbílstæði undir vellinum, endurbyggja búningsklefa og leggja nýtt gras á völlinn.

UEFA styrkir nýjan þjóðarleikvang í Albaníu
Annað dæmi er að finna í Albaníu en forráðamenn knattspyrnunnar þar í landi hafa löngum horft til þess að endurbyggja þjóðarleikvanginn í landinu. Langt fram eftir síðasta áratug voru hugmyndir um enduruppbygginguna bitbein milli stjórnvalda og albanska knattspyrnusambandsins.

Ástæðan var sú að þjóðarleikvangurinn var í eigu ríkisins sem var ekki tilbúið að fjármagna verkefnið. Árið 2010 reyndi albanska knattspyrnusambandið í samtogi með UEFA að taka af skarið, djarflega sögðu sumir, með því að fara þess á leit við ríkið að í stað þess að leikvangurinn yrði seldur áhugasömum aðilum til uppbyggingar, yrði hann færður knattspyrnusambandinu að gjöf með þeim skilyrðum að UEFA myndi annast hluta endurbótanna.

Því var hins vegar hafnað en eftir allt fjaðrafokið var á endanum ákveðið að byggja nýjan þjóðarleikvang. Ákveðið var að eignarhlutur nýja leikvangsins yrði skipt þannig að knattspyrnusambandið færi með 75% eignarhald en albanska ríkið 25%. Það má því segja að ósk knattspyrnusambandsins um að fá leikvanginn að gjöf hafi ræst að stórum hluta.

Þar sem ljóst er að albanska knattspyrnusambanið muni eigi meirihlutann í nýja leikvanginum var UEFA boðið og búið til að styrkja hluta framkvæmdanna en talið er að sambandið muni reiða fram allt að einum og hálfum milljarði króna til verkefnisins.

Byrjað var á framkvæmdum nýs þjóðarleikvangs í Albaníu í fyrra.

Fótbolti.net heldur umfjölluninni um Laugardalsvöll áfram á morgun og verður kostnaður uppbyggingar á nokkrum þjóðarleikvöngum síðustu 30 ára skoðaður og borinn saman. Einblínt verður á Norðurlandaþjóðirnar og smáþjóðir Evrópu og reynt að fá úr því skorið hvar Laugardalsvöllur stendur með tilliti til uppbyggingar.
Athugasemdir
banner
banner
banner